Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bush segir mistök að fara með herinn frá Afganistan

15.07.2021 - 22:20
Mynd: EBU / EBU
George W. Bush, fyrrum forseti Bandaríkjanna, varar við að Bandaríkjaher yfirgefi Afganistan að fullu. Það muni hafa hræðilegar afleiðingar fyrir íbúa landsins. Talíbanar buðu í dag þriggja mánaða vopnahlé í skiptum fyrir frelsun sjö þúsund fanga úr þeirra röðum.

Í fyrra var fimm þúsund talibönum sleppt úr fangelsi, flestir sneru aftur til fyrri starfa og styrktu til muna herafla talíbana. Afgönsk stjórnvöld hafa ekki svarað boðinu, þó þeim þyki vopnahlé eflaust vænlegur kostur. Talíbanar hafa styrkt stöðu sína verulega í landinu undanfarin misseri. Erfitt er að leggja mat á umfang þeirra, sjálfir segjast þeir ráða 85% landsins. Sérfróð segja nær lagi að þeir ráði meira en þriðjungi 400 héraða landsins. 

Uppgangur talíbana á sér stað á sama tíma og herlið NATO pakkar saman eftir tuttugu ára veru í landinu. George W. Bush, fyrrum forseti Bandaríkjanna, varar við að Bandaríkjaher yfirgefi Afganistan að fullu. Í viðtali í gær sagðist hann óttast að brotthvarf hersins muni hafa hræðilegar afleiðingar fyrir íbúa landsins. Bush fyrirskipaði sjálfur innrás Bandaríkjahers í Afghanistan í október árið 2001. 

Sífellt fleiri íbúar landsins hafa lagt á flótta vegna ótryggs ástands, en áfangastaðurinn er sjaldnast öruggur. Samkvæmt upplýsingum frá flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna er áætlað að um 270 þúsund Afganir hafi flúið heimili sín það sem af er þessu ári, vegna ótryggs ástands í landinu. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV