Bílalausar bílaleigur

15.07.2021 - 09:27
Mynd: Ólafur Göran Ólafsson Gros / Rúv
Sprenging hefur orðið í leigu á bílaleigubílum og fást ekki nógu margir bílar til að anna eftirspurn. Aukinn ferðamannastraumur er hluti ástæðunnar en einnig er skortur á nýjum bílum í kjölfar heimsfaraldursins.

Tómlegt á bílasölum

Það er tómlegt um að lítast á bílastæði bílasölunnar Hölds á Akureyri. Ástæðan er sú að flestir bílar sem stóð til að selja eru komnir í útleigu hjá Bílaleigu Akureyrar sem er í eigu Hölds. Þannig reyna bílaleigur að anna þeirri miklu eftirspurn sem er á bílaleigubílum.

Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar segir að bílar sem voru komnir í sölu frá leigunni séu allir komnir í útleigu. „Auðvitað hefur verið líka góð sala. Það hefur fækkað bílum á bílasölum almennt. Bílaleigurnar eru meira og minna búnar að taka bílana til sín til þess að nota þá í útleigu því eftirspurnin er meiri heldur en menn reiknuðu með í útleiguna,“ segir Steingrímur.

Jákvætt vandamál

Í fyrrasumar seldu bílaleigur stóran hluta bíla sinna þar sem mun færri ferðamenn voru á landinu en áður. Bílaleigur hafi þó að einhverju leyti verið búnar undir aukna eftirspurn í sumar og keypt inn nýja bíla.

„Hins vegar er það engin launung með það sem hefur ruglað stöðuna er pínulítið það að eftirspurnin er meiri en menn reiknuðu með sem er bara frábært, jákvætt vandamál. Hún kemur með skemmri tíma en menn reiknuðu með líka og svo eru tafir á afhendingu nýrra bíla því það eru tafir í framleiðslu á nýjum bílum,“ segir Steingrímur.

Skortur á bílum alþjóðlegt vandamál

Tafir á afhendingu nýrra bíla er alþjóðlegt vandamál. Í faraldrinum var mörgum verksmiðjum sem framleiða aukahluti í bíla lokað í sóttvarnaskyni. Bílaframleiðendur hafa því ekki getað staðið við skuldbindingar um afhendingu. Í lok júní vantaði um þriðjung af bílaflotanum sem bílaleigur voru búnar að panta inn á Íslandi og bílaumboðin hafa aldrei verið með eins lítinn lager af nýjum bílum.

Steingrímur Birgisson óttast ekki bakslag í faraldrinum og bílaleigan sitji upp með allt of marga bíla. Hann segir að í ferðaþjónustunni séu menn alltaf viðbúnir hröðum breytingum. „Við erum orðin ýmsu vön í þeim efnum, alls konar bakslögum. Það er þá eitthvað sem þarf að bregðast við en ég vona ekki,“ segir Steingrímur.