Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

7 dagar í Ólympíuleikana - Draumaliðið stal senunni

1992:  Michael Jordan (L), Magic Johnson (M) and Clyde Drexler (R) of Team USA, the Dream Team, sit on the bench during the men's basketball competition at the 1992 Summer Olympics in Barcelona, Spain. (Photo by Icon Sportswire)
 Mynd: Twitter

7 dagar í Ólympíuleikana - Draumaliðið stal senunni

15.07.2021 - 09:01
Ólympíuleikarnir verða settir í Tókíó í Japan eftir 7 daga. Í aðdraganda leikanna rifjum við því upp nokkur eftirminnileg augnablik í sögu leikanna. Í dag er komið að vegferð bandaríska körfuboltalandsliðsins á leikunum í Barcelona árið 1992.

Ólympíuleikarnir í Barcelona voru settir 25. júlí. Eldinn tendraði Spánverjinn Antonio Rebollo en hann hafði unnið silfurverðlaun í bogfimi á Paralympics 1984, brons 1988 og aftur fékk hann silfurá leikunum í Barcelona 1992. Rebollo tendraði því eldinn á Ólympíuleikvanginum í Barcelona á ótrúlegan hátt. 

Ólympíuleikarnir í Barcelona áttu eftir að verða merkilegir fyrir margar sakir. Þetta voru fyrstu leikarnir frá lokum Kalda stríðsins og loksins þurftu engar þjóðir að sniðganga Ólympíuleikana. Suður-Afríka tók meðal annars þátt í fyrsta sinn eftir 32 ára bann frá keppni á alþjóðlegum stórmótum.

Bandaríska Ólympíuliðið í körfubolta átti þó eftir að stela senunni á leikunum. Þetta var í fyrsta sinn þar sem atvinnumönnum úr NBA-deildinni var leyft að keppa á leikunum og því mætti stórskotalið Bandaríkjanna til Barcelona. Í liðinu voru meðal annarra þeir Michael Jordan, Magic Johnson, Larry Bird, Scottie Pippen, Charles Barkley og Karl Malone.

Bandaríska liðið fór hamförum á mótinu. Fyrsti leikurinn var gegn Angóla og lokatölur í þeim leik voru 116-48, Bandaríkjunum í vil. Bandaríska liðið vann alla leiki sína á mótinu, skoruðu alltaf yfir 100 stig í leik, en andstæðingar þeirra í leikjunum átta komust aldrei yfir 100 stigin. Charles Barkley, sem þá lék með Philadelphia 76ers, var besti maður bandaríska liðsins á mótinu. Hann setti Ólympíumet yfir stigaskorun í leik Bandaríkjanna gegn Brasilíu þegar hann skoraði 30 stig en hann endað imeð 87,5% skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna á leikunum. 

Ólympíuleikarnir í Barcelona verða rifjaðir upp í Ólympíukvöldi annað kvöld en Ólympíukvöld eru á dagskrá RÚV kl. 19:45 næstu kvöld fram að Tókíó.