Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Talíbanar tóku sérsveitarmenn af lífi

14.07.2021 - 03:25
epa09342806 Armed supporters of former Mujahideen commander Khan, stand guard on a roadside checkpoint as they vow to fight side by side with the Afghan security forces to defend their regions in Herat, the provincial capital of Herat province neighboring Iran, in Herat, Afghanistan, 13 July 2021. Taliban fighters have captured two Afghan border crossings with Iran and Turkmenistan, officials said 09 July, marching ahead with their rapid territorial gains after American troops started pulling out from Afghanistan. A significant amount of trade happens through the ports generating massive revenues for the Afghan government.  EPA-EFE/JALIL REZAYEE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
22 liðsmenn sérsveitar afganska hersins voru teknir af lífi af liðsmönnum Talíbana í borginni Dawlat Abad í Faryab-héraði Afganistans í síðasta mánuði. Þetta sést á myndböndum sem bandarísku fréttastofunni CNN áskotnuðust og hafa staðfest með samtölum við vitni og starfsmenn Rauða krossins.

Sérsveitarmennirnir vörðu borgina fyrir árásum Talíbana, en urðu uppiskroppa með skotfæri eftir hatrammann bardaga. Vitni segja Talíbana hafa umkringt þá og loks tekið þá af lífi. Aftökurnar eru í hrópandi ósamræmi við fullyrðingar Talíbana um að þeir samþykki uppgjöf hermanna og borgi þeim jafnvel fyrir að fara heim til sín.

Í myndbandi sem Talíbanar birtu þremur dögum eftir bardagana í Dawlat Abad sýndu þeir herbíla og vopn sem þeir höfðu af afgönskum hermönnum. Þar sögðust þeir hafa tekið sérþjálfaða hermenn til fanga, afvopnað og handjárnað. Í samtali við CNN segja Talibanar myndböndin sem fréttastofan hefur undir höndum vera fölsuð og áróður stjórnvalda til þess að hvetja fólk til að gefast ekki upp fyrir Talíbönum. 24 sérsveitarmenn séu enn í haldi í Faryab-héraði. Afganska varnarmálaráðuneytið segir ekkert hæft í fullyrðingum Talíbana um að sérsveitarmennirnir séu í haldi. Talsmaður ráðuneytisins greindi CNN frá því að mennirnir hafi verið drepnir. 

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja aftökurnar vera stríðsglæp. Samira Hamidi, starfsmaður Amnesty í Suðaustur-Asíu, segir gögn CNN sýna að fullyrðingar Talíbana um að þeir hafi breytt um stefnu séu lygar og grafi undan orðum þeirra um að þeir ætli að virða mannréttindi í landinu. Hún hvetur afgönsk stjórnvöld til að rannsaka málið tafarlaust.