Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir ástæðu til bjartsýni eins og staðan er núna

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Drífa Snædal forseti ASÍ telur útlitið á vinnumarkaði nú almennt ágætt. Ferðaþjónustan sé að fara af stað með miklum krafti og fólk að snúa til fyrri starfa þar. Hún segir alla finna það á eigin skinni hve mjög er að lifna yfir samfélaginu.

„Við höfðum það á tilfinningunni alltaf að bæði atvinnuleitendur og atvinnurekendur væru að bíða eftir að hlutir færu af stað með sama sniði aftur.“

Drífa telur að margir hafi verið að bíða eftir sínu gamla starfi. „Að einhverju leyti er það að raungerast núna.“ Drífa segir vaxtaverki geta fylgt örri fjölgun ráðninga en hún segir óhætt að vera nokkuð bjartsýn á þessarri stundu.

„Ég orðaði þetta þannig um daginn að það mætti ekki koma fram við atvinnuleitendur eins og hilluvöru. Það átti einhvern veginn allt að fara af stað strax og þá er alltaf hætt við að það sé ekki vandað til verka í ráðningum. Bæði það að ekki sé vandað til verka svo að fólk fái störf við hæfi og ekki vandað til verka við ráðningarsamninga og svo framvegis.“

Um sex þúsund manns hafa verið lengi atvinnulaus. Drífa segir nauðsynlegt að draga lærdóm af fyrra atvinnuleysisskeiði hvað langtímaatvinnuleysi snertir. Ungt fólk hafi þá verið lengi án atvinnu og því þurfi að horfa til persónubundinna úrræða.

„Það þarf að vera með einhvers konar virknitryggingu, sérstaklega fyrir ungt fólk þannig að það sé haldið þéttar utan um þann hóp. Annað hvort með hvatningu til að fara í skóla eða til vinnu.“

Drífa segir atvinnuúrræði stjórnvalda enn tryggja fólki störf. „Klárlega. Allavega miðað við þessar tölur frá Vinnumálastofnun. Það er einhver þriðjungur þeirra starfa sem fjölgaði um þarna, eða fækkaði á atvinnuleysisskrá.“