
„Lungu heimsins“ losa meira kolefni en þau binda
Stærsti losunarvaldur koltvíoxíðs úr skóginum eru skógareldar sem eru tendraðir til þess að búa til beitiland fyrir búfénað og rýma til fyrir sojaræktun.
Síðan á 7. áratug síðustu aldar hafa tré og plöntur bundið um fjórðung alls koltvíoxíðs í andrúmsloftinu og hefur Amazon-regnskógurinn, iðulega kallaður lungu heimsins, gegnt þar lykilhlutverki. Nú er svo komið að það má segja að skógurinn sé frekar uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda í stað þess að þjóna mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Það, að skógurinn missi getu sína til að binda koltvíoxíð, er grafalvarlegt mál að sögn vísindamanna. Við rannsóknina nýttu vísindamennirnir litlar flugvélar til að mæla magn koltvíoxíðs í 4500 metra hæð yfir regnskóginum. Rannsóknin stóð yfir í heilan áratug og voru niðurstöður hennar birtar í tímaritinu Nature í dag. Rannsóknin þykir gefa góða mynd af því hvernig skógurinn er að breytast.
Það sem veldur vísindamönnunum mestu hugarangri er sú staðreynd að regnskógurinn virðist losa koltvíoxíð þó svo að engir skógareldar brenni. Skógareyðingin kemur af stað keðjuverkun en þar sem trén framleiða stóran hluta rigningar á svæðinu þýða færri tré meiri þurrka, hitabylgjur og þar af leiðandi aukinn trjádauða og frekari elda.
Slæmu fréttirnar eru tvíþættar að sögn Luciönu Gatti hjá Geimrannsóknarstofnun Brasilíu. Í fyrsta lagi framleiðir brennandi skógurinn þrisvar sinnum meiri koltvíoxíð en hann bindur og í öðru lagi að þar sem skógareyðing er 30% eða meiri er kolefnislosun tíu sinnum hærri en á svæðum þar sem skógareyðing er minni en 20%.
„Við þurfum alþjóðasamkomulag um að bjarga Amazon-skóginum,” segir Gatti en stór hluti þeirra afurða sem eru ræktaðar í Amazon-skóginum, þar á meðal timbur og soja, er flutt úr landi. Sumar Evrópuþjóðir hafa sagst ætla að koma á viðskiptabanni við Brasilíu nema forseti landsins grípi til aðgerða og sporni við frekari eyðingu regnskógarins.
Ríkisstjórn landsins virðist lítið ætla að gera í málinu og forseti landsins, Jair Bolsanaro, hefur jafnvel hvatt til frekari skógareyðingar.