Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Í farbanni með réttarstöðu sakbornings en fór úr landi

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RUV
Rúmenskur karlmaður, sem grunaður er um að hafa orðið Daníel Eiríkssyni að bana í Kópavogi í apríl, er farinn úr landi þrátt fyrir að hafa verið úrskurðaður í farbann. Unnið er að því að fá útgefna evrópska handtökutilskipun á hendur manninum.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu en fyrst var greint frá málinu í hádegisfréttum Bylgjunnar. Margeir segir að svo virðist vera sem maðurinn hafi orðið sér úti um nýtt vegabréf og komist þannig úr landi. 

Margeir segir við fréttastofu að ekkert bendi til þess að maðurinn hafi útvegað sér vegabréf á öðru nafni, en málið er til skoðunar í samstarfi við lögreglustjórann á Suðurnesjum. Lögreglan hefur verið í sambandi við manninn í gegnum verjanda hans. 

Maðurinn var úrskurðaður í farbann til 1. september, en kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald var hafnað. Margeir segir þetta sýna að farbann sé ekki öruggt úrræði og ef einbeittur vilji er til staðar, þá sé hægt að brjóta gegn slíku úrræði. Þetta sé ekki fyrsti einstaklingurinn sem er í farbanni með réttarstöðu sakbornings en kemst úr landi.

Aðspurður um gang rannsóknarinnar á manndrápinu segir Margeir það ganga vel, beðið sé eftir gögnum og niðurstöðum tæknideildar en allt sé í réttum farvegi.