Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm smit utan sóttkvíar - Þrír fullbólusettir

14.07.2021 - 11:03
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Fimm greindust smitaðir af kórónuveirunni í gær, allir utan sóttkvíar samkvæmt tilkynningu frá Almannavörnum. Þrír aðilanna teljast fullbólusettir.

Smitrakning stendur yfir vegna smitanna og segir í tilkynningu að líkur séu á því að á annað hundrað manns muni fara í sóttkví í kjölfarið.

Í gær var greint frá því að tvö smit hafi greinst innanlands, án rekjanlegra tengsla við landamæri. Annar hinna smituðu hafði sótt skemmtistaði á höfuðborgarsvæðinu um liðna helgi. Skemmtistaðurinn Bankastræti Club greindi svo frá því að aðilinn hefði verið gestur staðarins og hvatti aðra gesti til að fara í sýnatöku.

Í tilkynningu frá Almannavörnum segir að smitin sem hafa komið upp undanfarna daga hafi tengingar við skemmtanalífið, stóra fjölskyldu- og vinaviðburði.

Þá eru allir hvattir til að fara varlega, passa upp á einstaklingsbundnar sóttvarnir, fara í sýnatöku við minnstu einkenni og að hafa rakningarappið í símanum.

Andri Magnús Eysteinsson