Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki sérstakar Covid-ráðstafanir á Austurlandi

Mynd með færslu
 Mynd: Guðrún Blöndal
Fjöldi manns hyggst halda austur á land næstu daga, bæði vegna einmuna veðurblíðu og margvíslegra skemmtana sem fyrirhugaðar eru þar í fjórðungnum. Lögreglan segir skipuleggjendur hafa varann á sér í ljósi nýrra Covid-tilfella en verður að óbreyttu ekki með sérstakan viðbúnað vegna smita.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að veðrið hefur leikið við Austfirðinga þetta sumarið og virðist lítið lát ætla að verða á því. Ófáir landsmenn hyggja því á ferðalög austur á firði til að njóta veðurblíðunnar. Auk þess er talsvert um skipulagðar hátíðir í fjórðungnum um þessar mundir; LungA, listahátíð unga fólksins, hefst í dag á Seyðisfirði, og í næstu viku verður blásið til Bræðslunnar á Borgarfirði eystri og Franskir dagar hefjast þá á Fáskrúðsfirði.

Um leið ber svo við að nokkur smit hafa greinst á höfuðborgarsvæðinu og almannavarnir biðla til fólks að gá að sér í fjölmenni og hafa smitvarnir í huga í hvívetna. Lögregla ætlar þó ekki að bregðast sérstaklega við aukinni smithættu, ekki að svo stöddu í það minnsta.

„Við verðum með viðbótargæslu á þessum svæðum þar sem útihátíð eru skipulagðar, en það tengist ekki COVID-19 faraldrinum sérstaklega, heldur er um hefðbundinn viðbúnað að ræða þar sem um fjöldasamkomur er að ræða, segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn við embætti lögreglustjórans á Austurlandi.

„Við biðlum til fólks að fara varlega og gæta að sér en að öðru leyti erum við ekki að gera sérstakar ráðstafanir vegna veirunnar, enda engar reglur til staðar af hálfu hins opinbera eins og stendur.“ Kristján bætir því við að hann skynji að skemmtanahaldarar séu meðvitaðir um smithættuna sem geti komið upp og geri allt til að tryggja öryggi gesta sinna. Spritt verður til að mynda aðgengilegt í hvívetna til að hægt sé að sótthreinsa hendur eftir þörfum.

Aðspurður hvort hann sé uggandi yfir nýjum smitum sem hafa greinst síðustu daga á höfuðborgarsvæðini þá segir Kristján það útaf fyrir sig ekkert nýtt. „Við höfum verið uggandi yfir stöðunni síðan snemma árs 2020, það breytist ekkert meðan veiran er á ferðinni. Við minnum bara á persónulegar sóttvarnir, handþvott og spritt, og biðlum til fólks að það skemmti sér skynsamlega.“