Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Auknu fiskeldi fylgja frekari rannsóknir og vöktun í ám

14.07.2021 - 14:13
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Á síðasta ári fékk Hafrannsóknastofnun til sín þrjá eldislaxa sem sluppu úr sjókvíum og veiddust í laxveiðiám. Fiskifræðingur bendir á að ekki veiðist nema hluti strokufiska og mismikið eftirlit sé í ánum. Slík vöktun eykst þó sífellt.

Hafrannsóknastofnun hefur nú gefið út nýja skýrslu með samantekt um áhrif sjókvíaeldis á íslenska laxastofna og helstu niðurstöðum rannsókna og vöktunar ársins 2020.

Aukinn kraftur í vöktun vegna áhrifa sjókvíaeldis

„Sjókvíaeldi á laxi er vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Eldinu fylgja áhættuþættir sem taldir eru geta ógnað stöðu villtra laxastofna hér á landi, t.d. hvað varðar erfðablöndun. Árið 2017 kom út áhættumat Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Í kjölfar þess hefur verið settur aukinn kraftur í vöktun vegna áhrifa sjókvíaeldis á íslenska laxastofna,“ segir meðal annars í inngangi að skýrslunni.

Meiri hætta á að eldisfiskar gangi upp í árnar

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnssviðs Hafrannsóknastofnunar og einn skýrsluhöfunda, segir að með vaxandi laxeldi hafi hætta aukist á að eldisfiskar sleppi og komi upp í ár. „Menn hafa verið að reyna að vinna gegn slíku. Og til þess að hafa möguleika og þekkingu til þess að vita hvert ástandið er, þá skiptir máli að ná í upplýsingar. Og það að vera með kerfisbundna vöktun er liður í því.“

Þrír eldisfiskar úr laxveiðiám á síðasta ári 

Það eftirlit fari fram með teljurum sem búnir eru myndavélum svo hægt sé að telja fisk sem gengur í árnar og greina hvort þar séu eldisfiskar. En einnig er safnað sýnum úr seiðum og þau upprunagreind til að sjá hvort þau koma úr eldi. „Á síðasta ári voru þrír meintir eldisfiskar sem bárust okkur til greininga, sem höfðu sloppið úr eldi úr tilkynntum óhöppum. Sem betur fer þá var fjöldinn ekki meiri heldur en þetta. En eins og menn vita þá náttúrulega veiðist ekki nema hluti og það eru ekki nema tiltölulega fáar ár sem eru með teljurum,“ segir Guðni.

Áætlað að koma myndavélum fyrir í tólf ám

Með því að vera með mælingar á ákveðnum stöðum segir Guðni hægt að gera sér betur grein fyrir heildarfjöldanum og hlutfalli eldisfiska. „Upphaflega áætlunin var að koma svona myndavélum fyrir í tólf ám og við erum að vinna eftir þeirri áætlun, eftir því sem að fjármagn leyfir.“