Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Virt kammersveit leggur niður störf vegna skulda

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock

Virt kammersveit leggur niður störf vegna skulda

13.07.2021 - 14:33

Höfundar

Gríska kammersveitin Athens Camerata, ein helsta menningargersemi Grikklands, hefur verið lögð niður vegna skulda. Menningarmálaráðherra Grikklands tilkynnti þetta í gær en sveitin hefur verið starfandi í þrjátíu ár.

„Camerata sveitin var mjög mikilvæg hljómsveit,“ sagði Lina Mendoni, menningarmálaráðherra Grikklands, í gær. Hún sagði að sveitin yrði endurvakin með tíð og tíma en núna væri óhjákvæmilegt að leggja sveitina niður.

Sveitin var stofnuð árið 1991 og hefur leikið í mörgum virtustu hljómleikahöllum veraldar. Þá var hinn víðfrægi enski hljómsveitarstjóri Sir Neville Marriner listrænn stjórnandi sveitarinnar um tíma.

Árið 2010 voru fjárveitingar til sveitarinnar skornar verulega niður í kjölfar efnahagskreppunnar í Grikklandi. Stjórn sveitarinnar lét af störfum árið 2015 og árið 2018 leituðu meðlimir sveitarinnar til Alexis Tsipras, þáverandi forsætisráðherra Grikklands, og óskuðu eftir að stjórnvöld myndu styrkja sveitina svo hún gæti haldið áfram störfum en þá voru tónlistarmennirnir í sveitinni í sjálfboðavinnu og fengu engin laun greidd.