Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það er eins gott að hunsa hana ekki“

13.07.2021 - 19:40
Mynd: Kristján Þór Ingvarsson / Skjáskot
Hafnfirskur hundur lætur eiganda sinn vita áður en hún fær slæm mígreniköst sem valda meðal annars tímabundinni lömun. Þannig fær eigandinn ráðrúm til að taka lyf sem draga úr einkennunum. Hundurinn er nú í þjálfun til að læra að bera enn betri kennsl á einkennin.

Hún Jökla er tveggja ára blendingur af border collie og íslenskum fjárhundi og augasteinn Karenar Einarsdóttur eiganda síns sem er með hemyplegískt mígreni en það er sjaldgæf tegund af krónísku mígreni.

„Það lýsir sér svolítið eins og heilablóðfall,“ segir Karen til útskýringar. „Ég missi mátt öðru megin í líkamanum, andlitið sígur, ég get ekki talað og sumir segja að það sé eins og ég sé hálf-drukkin. Svo fæ ég í bland venjuleg mígreniköst en ég fæ mígreniköst daglega.“

Og fyrir nokkru tók Karen eftir því að Jökla hagaði sér alltaf á sama hátt skömmu áður en hún fékk mígrenikast. „Hún varð oft mjög stressuð í upphafi kasts og vill vera hjá mér sama hvað. Hún vill helst koma og vera í fanginu hjá mér. Svo fórum við að taka eftir því að hún kemur á bringuna, er mikið að þefa í kringum munninn, setur loppuna í varirnar og sleikir. Og þetta er samsetning af hegðun sem hún sýnir aldrei annars. Lengsti tíminn sem hún hefur látið mig vita áður en kast byrjar er 45 mínútur.“

Lykt gefur mígrenikastið til kynna 

Þetta skiptir miklu máli fyrir líðan Karenar því ef hún veit af kastinu fyrir fram getur hún tekið lyf sem draga úr einkennunum og þau virka betur eftir því sem hún tekur þau fyrr. Jökla finnur breytingu á lyktinni af munnvatni Karenar ef mígrenikast er yfirvofandi og núna er hún í daglegri þjálfun undir handleiðslu hundaþjálfara þar sem þessir eiginleikar hennar eru styrktir.

Nú er Karen, í samstarfi við hundaþjálfara, að vinna í því bæði að styrkja þessa hegðun og fá hana til að láta vita fyrr. „En svo erum við líka að reyna að kenna henni að þekkja muninn á lyktinni eftir því hvort ég fæ kast með lömunareinkennum eða bara venjulegt kast. Það er efnafræðilegur munur þarna á milli á lyktinni. Og við erum búnar að ákveða að áður en ég fæ þessi lömunarköst þá viljum við að hún snúi sér í hring.“

Til að þjálfa Jöklu safnar Karen munnvatnssýnum sem hún tekur bæði þegar hún er við það að fá mígreni og þegar svo er ekki. Jökla þefar af þeim og lærir að þekkja muninn. 

„Hún tekur þessu mjög alvarlega og hún verður virkilega fúl ef ég hlusta ekki. Þá kemur hún. Líka, ef ég tek ekki lyfin mín strax þá kemur hún og lætur mig vita aftur og aftur og aftur þangað til að ég gef eftir og tek lyfin. Þannig að það er eins gott að hunsa hana ekki. Enda hefur hún ekki enn þá haft rangt fyrir sér.“

Þetta hlýtur að vera ómetanlegt? „Þetta er það. Og það væri auðvitað ofboðslega gott ef þetta væri eins og víða erlendis að ég gæti tekið hana með mér hvert sem er. En því miður er það ekki orðið þannig enn þá hérna heima.“

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir