Skipuleggja hvernig skila eigi bóluefnaskömmtum

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RUV
Verið er að skipuleggja hvernig eigi að skila Norðmönnum og Svíum því bóluefni sem Íslendingar fengu að láni. Noregur lánaði Íslandi 16 þúsund skammta af bóluefni AstraZeneca og Svíar 24 þúsund skammta af bóluefni Janssen frá Svíþjóð. Engum bóluefnaskömmtum hefur verið skilað til þessara tveggja landa enn sem komið er.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Þar segir enn fremur að verið sé að skipuleggja þetta „og eigum við í viðræðum við Norðmenn og Svía um framkvæmdina.“

Ísland er í fremstu röð þegar kemur að bólusetningum gegn COVID-19.  Aðeins eiga um 26 þúsund Íslendinga, 16 ára og eldri, eftir að klára bólusetningu sína og af þeim verða 11 þúsund fullbólusettir í dag og hinn.

Samkvæmt samkomulagi sem gert var við sænsk stjórnvöld hafa íslensk yfirvöld frest fram í október til að skila bóluefnaskömmtunum sem lánaðir voru hingað. Þetta voru 24 þúsund skammtar af bóluefni Janssen.

Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu í júní kom fram að ráðuneytið ætlaði að hefja endurgreiðslur strax í þessum mánuði en það hefur ekki gengið eftir. Ekkert bóluefni frá Janssen komið til Íslands frá því um miðjan júní, samkvæmt vef Stjórnarráðsins.  Rúmlega 55 þúsund Íslendingar hafa verið bólusettir með bóluefninu.

Sömu sögu er að segja af bóluefni AstraZeneca. Ráðuneytið ætlaði í þessum mánuði að skila þeim 16 þúsund skömmtum sem fengnir voru að láni í apríl og upphaflega átti að skila þeim í síðasta mánuði. Norðmenn hafa ekki notað AstraZeneca í sinni bólusetningaáætlun.

Miðað við staðfesta afhendingaráætlun á vef Stjórnarráðsins koma aðeins 5 þúsund skammtar af bóluefninu til landsins í þessum mánuði og enn á eftir að fullbólusetja nærri 7.500. Einhverjum þeirra verður boðið að fá Pfizer í seinni sprautunni.

Ráðuneytið segir í svari sínu að afhendingaráætlun lyfjafyrirtækjanna tveggja sé ekki fyrir þeim enn sem komið er.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV