Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sex sjúklingar fastir inni á geðdeildum Landspítalans

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sex útskriftarfærir sjúklingar eru fastir á geðdeildum Landspítalans vegna skorts á úrræðum á vegum sveitarfélaganna. Tveir hafa beðið lengur en sex mánuði, annar þeirra í tvö ár. Yfirlæknir réttargeðdeildarinnar segir sveitarfélögin ekki standa sig í uppbyggingu úrræða fyrir þennan hóp. Það gerir það að verkum að fólk festist inni á geðdeildum og fyllist vonleysi og uppgjöf.

Gagnrýnir sveitarfélögin

Allir sjúklingarnir eru með lögheimili í Reykjavík nema einn sem er úr Reykjanesbæ. Samkvæmt upplýsingum frá geðsviði LSH hefur einn þeirra þó fengið úrræði, en það er ekki tilbúið. Hann dvelur á öryggisgeðdeild. Fjórir sjúklinganna hafa beðið í allt að þrjá mánuði en tveir hafa beðið lengur en 6 mánuði, annar á Réttargeðdeild og hinn á öryggisgeðdeild. Fréttastofa hefur fjallað um mál mikið fatlaðs manns sem hefur verið vistaður á réttargeðdeildinni síðan 2017, en var sýknaður og metinn ósakhæfur ári síðar. 

Sigurður Páll Pálsson, yfirlæknir réttargeðdeildarinnar, segir sveitarfélögin ekki hafa staðið sig nægilega vel í því að búa til úrræði fyrir þennan hóp og undirstrikar mikilvægi þess að bæta úr því, þar sem réttindi allra séu að fá búsetu utan veggja heilbrigðisstofnana. 

„Það eru margir ennþá að bíða á réttar- og öryggisdeildum eftir úrræði. Það hefur verið versnandi vandamál síðustu fjögur ár.” 

Meðaldvalartími fólks á réttargeðdeildinni er um fjögur ár. Eftir að út er komið er fólk undir eftirliti hjá Sigurði Páli og segir hann að það gangi vel með langflesta. Margir eru farnir að vinna. En að festast inni á deildunum geti haft alvarlegar afleiðingar. „Þetta er ástand sem hefur þróast vegna úrræðaleysis úti í samfélaginu,” segir Sigurður Páll. 

„Sjálfsmynd þess hrynur, því hrakar, það kemur vonleysi, uppgjöf. Þannig að þetta er ekki gott fyrir neinn.”