Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mörg hundruð fá störfin sín aftur á flugvellinum

Mynd: Anna Lilja Þórisdóttir / Ljósmynd
Mörg hundruð manns hafa verið ráðin til starfa hjá fyrirtækjum á Keflavíkurflugvelli undanfarnar vikur. Margir sem misstu vinnu í faraldrinum hafa fengið gömlu störfin sín aftur og til stendur að ráða fleiri. Misvel gengur að fá fólk til starfa. 

Lagardére rekur sjö veitingastaði og eina búð á flugvellinum. Starfsmannafjöldi þar mun tvöfaldast á næstunni.

„Við höfðum takmarkaða opnun í júní en síðan jókst þetta svo mikið núna í byrjun júlí að við þurftum að ráða fleiri, en það gengur ekki eins hratt og við vildum,“ segir Sigurður Skagfjörð Sigurðsson forstjóri Lagardère á Íslandi. „En sem betur fer hefur okkur tekist að ná í mjög mikið af okkar gamla fólki sem var í vinnu hjá okkur fyrir COVID og það er ánægjulegasti hluturinn í þessu öllu saman.“

Fjórir veitingastaðir félagsins eru opnir nú og stefnt er að því að þeir hafi allir opnað í lok mánaðarins.

Havarí í ráðningum

Isavia er stærsti vinnuveitandinn á flugvellinum og í fyrra var um 230 starfsmönnum félagsins þar sagt upp störfum. 

„Við erum búin að vera að ráða töluvert núna síðustu vikur og mánuði í kjölfarið á sumartraffíkinni og aukningu á komu ferðamanna. Þannig að það hefur verið smá havarí í ráðningum hjá okkur,“ segir Brynjar Már Brynjólfsson mannauðsstjóri Isavia.

Hversu marga hafið þið ráðið? „Uma 300 starfsmenn núna á síðustu vikum og mánuðum sem koma þá aðallega í sumarstörf hjá okkur og erum að hefja fastráðningu á hluta af þeim starfsmönnum fyrir veturinn.“

Var verið að bjóða fólki gömlu störfin sín aftur? „Já, það var auðvitað það fyrsta sem við gerðum - við buðum þeim sem misstu störfin sín út af COVID. Við buðum þeim að koma inn aftur.“

Og búist er við að fleiri verði ráðnir þegar líður á sumarið, að sögn Brynjars. „Við sjáum fram á það á næstu vikum og mánuðum að við komum til með að ráða. Bæði í störf hér á flugvellinum en líka á stoðsvið og stoðþjónustu.“

Allt að fara í gang

Icelandair hefur ráðið aftur um 400 starfsmenn á flugvellinum og búið er að ráða aftur yfir helming þeirra 200 starfsmanna sem Airport Associates, sem sinnir fólki og flugvélum á Keflavíkurflugvelli, sagði upp í kórónuveirufaraldrinum.  „Sem betur fer þá er þetta bara allt að fara í gang og við höfum verið að endurráða og erum komin með rúmlega 200 manns núna og á leiðinni upp,“ segir Sigþór Kristinn Skúlason forstjóri Airport Associates.

Hvenær sérðu fyrir þér að þið verðið komin upp í sama starfsmannafjölda og fyrir faraldur? „Ég held að það verði ekkert rosalega langt í það. Við eigum eftir að fara yfir þann fjölda eftir því sem Play stækkar og svo eru fleiri félög eins og Easy Jet og Wizz Air og British og þessi félög sem eru að auka mjög mikið.“

Fengu gömlu störfin sín aftur

Um helmingur þeirra sem sagt var upp hjá Bílaleigu Akureyrar, sem er meðal annars með starfsemi á Keflavíkurflugvelli hafa verið ráðnir aftur og til stendur að ráða fleiri. „Við þurfum að bæta við okkur, sérstaklega hér á Suðurnesjunum í þrif og þjónustustörf,“ segir Bergþór Karlsson framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar sem segist ekki eiga von á að sami fjöldi starfsmanna verði ráðinn til fyrirtækisins og fyrir faraldur. 
Buðuð þið fólkinu sem þið sögðuð upp gömlu störfin sín aftur? „Já, við gerðum það,“ segir Bergþór.

En það er allur gangur á því hvernig gengur að fá fólk til starfa:

„Við reiknuðum með að það myndi ganga betur, það er alveg óhætt að segja það,“ segir Bergþór.

„Það eru ekki allir tilbúnir að þiggja okkar starf, þeir vilja eitthvað annað starf,“ segir Sigurður.

„Fyrirfram hefði maður haldið að það myndi ganga aðeins betur,“ segir Sigþór.

„Við finnum auðvitað fyrir því eins og aðrir og  ferðaþjónustan að það er orðin samkeppni um starfsfólk,“ segir Brynjar.