Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kærir nafnlausar sögur um Ingó veðurguð til lögreglu

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður tónlistarmannsins Ingólfs Þórarinssonar, hefur fyrir hönd skjólstæðings síns kært 32 nafnlausar sögur sem birtust á Tiktok-svæðinu Öfgar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur fimm verið sent kröfubréf vegna ummæla á netinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þetta meðal annars blaðamenn, áhrifavaldur sem látið hefur til sín taka í seinni #metoo-bylgjunni og fólk sem sakaði Ingólf um refsiverða háttsemi í athugasemdakerfi fjölmiðla.

Mál Ingólfs komst í hámæli þegar 130 konur kröfðust þess við þjóðhátíðarnefnd að Ingólfur stýrði ekki brekkusöngnum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.  Aðgerðarhópurinn Öfgar birti síðan nafnlausar frásagnir yfir tuttugu kvenna þar sem þær greindu frá að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og áreitni af hálfu þekkts tónlistarmanns.  Sá var Ingólfur.

Fimm stefnt og frásagnir kærðar til lögreglu

Þjóðhátíðarnefnd sendi í framhaldinu frá sér yfirlýsingu um að Ingó myndi ekki stýra brekkusöngnum eins og hann hafði gert frá árinu 2013. Í dag var tilkynnt að Magnús Kjartan Eyjólfsson hefði verið ráðinn í hans stað.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Ingólfs, segir í samtali við fréttastofu að fimm einstaklingar fái kröfubréf. Þeir hafi látið ásakanir um refsiverða háttsemi „og þar með ærumeiðandi aðdróttanir falla um umbjóðanda minn, annaðhvort á samfélagsmiðlum eða í fréttum sem birtust í fjölmiðlum.“

Síðan verði 32 nafnlausar sögur, sem birtar voru á Tiktok-svæðinu Öfgar, kærðar til lögreglu. „Þar voru birtar ásakanir um meinta refsiverða háttsemi umbjóðanda míns sem ekki eiga við rök að styðjast.“

Vilhjálmur segir að einstaklingarnir fimm verði krafðir um afsökunarbeiðni og miskabætur.  „Hvað varðar kæruna til lögreglunnar er þess einungis krafist að viðkomandi einstaklingar verði látnir sæta refsingu fyrir ærumeiðingar.“

Segir Ingólf hafa orðið fyrir „stórkostlegu tjóni“

Kæran beinist ekki að forsvarsmönnum Öfga heldur þeim sem standi á bakvið nafnlausu sögurnar. Hann segir lögregluna hafa sínar aðferðir til að finna út úr því hverjar þetta séu,  til að mynda með því að taka skýrslur af vitnum og leggja hald á muni. „Og ég treysti lögreglunni fullkomlega til þess að framkvæma það verk.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/samsett mynd - RÚV

Fram kom í yfirlýsingu forsvarsmanna Öfga að hver einasta frásögn hefði verið staðfest með því að bera saman sendanda við Íslendingabók. „Engin frásögn sem birt hefur verið hefur komið frá sendanda sem ekki er hægt að staðfesta.“  Rætt hefði verið við þolendur og hópurinn séð myndir af áverkum.

Vilhjálmur segir alveg ljóst að Ingólfur hafi orðið fyrir stórkostlegu tjóni, bæði fjárhagslegu og ófjárhagslegu sem aldrei verði bætt að fullu. „En honum er nauðugur einn sá kostur að fara í þessar aðgerðir, stíga niður fæti og stöðva þennan ósóma.“

Fram kom á visir.is í gær að Ingólfur hefði verið afbókaður víðast hvar eftir að nafnlausu ásakanirnar birtust.

Stöð 2 hefur sömuleiðis aflýst þriðju þáttaröðinni af Í kvöld er gigg og hefur tekið úr sýningu þáttaröð 2 sem hefur verið í endursýningu. „Það stóð til að það yrði gerð önnur sería í haust en við á­kváðum snemma í vor að setja þættina í pásu vegna um­ræðunnar sem var þá í gangi,“ hafði visir.is eftir Þórhalli Gunnarssyni, framkvæmdastjóra miðla hjá Sýn.

Dómstóll götunnar „aðför að samfélagssáttmála“

Ingólfur hefur verið borinn mjög þungum sökum á netinu en Vilhjálmur minnir á að Ingólfur hafi ekki verið ákærður eða dæmdur fyrir hegningarlagabrot „og hvað þá heldur fyrir kynferðisbrot“. 

Ásakanirnar á hendur Ingólfi koma í kjölfarið á annarri bylgju #metoo þar sem sjónum hefur verið beint að getuleysi lögreglu og dómstóla í kynferðisbrotamálum. Margir eru þeirrar skoðanir að frásagnir af slíkum brotum séu eina leiðin til að draga mál fram í dagsljósið. 

Vilhjálmur telur mál Ingólfs ekki snúast um hvort #metoo-bylgjan standist lög. „En það er algjört grundvallaratriði að fólk gæti að orðum sínum og brúki lögvarið tjáningarfrelsi sitt þannig að það vegi ekki að friðhelgi einkalífs og æruvernd annarra. Og það er það auðvitað þannig og það er hluti af lýðræðinu og réttarríkinu að þeir sem telja á sér brotið hafa ákveðnar leiðir til að ná fram rétti sínum. Ég tel að dómstóll götunnar, sem þetta er, sé aðför að þeim sáttmála.“

#Metoo áður farið fyrir dómstóla 

Ingólfur er ekki fyrsti nafntogaði einstaklingurinn sem leitar réttar síns eftir ásakanir í tengslum við #metoo.

Atli Rafn Sigurðarson fór til að mynda í mál við Leikfélag Reykjavíkur og Kristínu Eysteinsdóttur, þáverandi leikhússtjóra Borgarleikhússins, eftir að honum var sagt upp störfum vegna ásakana eftir fyrri #metoo-bylgjuna.  Leikfélagið og Kristín voru sýknuð í Landsrétti en Hæstiréttur féllst á málskotsbeiðni hans í málinu gegn leikfélaginu.

Jón Páll Eyjólfsson, fyrrverandi leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, var dæmdur í tveggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi fyrir nauðgun sem átti sér stað fyrir rúmum áratug. Hann lét af störfum sem leikhússtjóri eftir að hafa gengist við alvarlegu kynferðisbroti í kjölfar fyrri #metoo-bylgjunnar. Hann hefur áfrýjað dómnum til Landsréttar.

Mynd með færslu
 Mynd: . - Umslag

Ingólfur er annar tónlistarmaðurinn á skömmum tíma sem borinn hefur verið þungum sökum á samfélagsmiðlum.

Auðunn Lúthersson, betur þekktur sem Auður, sendi frá sér yfirlýsingu í byrjun síðasta mánaðar þar sem hann viðurkenndi að hafa farið yfir mörk gagnvart konu án þess að átta sig á því fyrr en á síðari stigum. Hann sagðist ekki ætla að taka þátt í verkefnum á meðan hann leitaði sér hjálpar. Hann vísaði hins vegar á bug því sem hann kallaði „flökkusögur um alvarleg afbrot á Twitter.“

UN Women fjarlægði listamanninn af öllu kynningarefni, hann kom ekki að uppsetningu Þjóðleikhússins á Rómeó og Júlíu eða tónleikum Bubba Morthens. 

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður Ingólfs Þórarinssonar, Ingó veðurguðs.