Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hringvegur og raflína í hættu við Jökulsárlón

Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Flytja þarf raflínur og hringveginn austan Jökulsárlóns vegna ágangs sjávar. Strandlengjan hefur færst um tvo til fjóra metra á ári.

Við hringveginn austan við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi hefur hafið fari óblíðum höndum um strandlengjuna. Frá árinu 1904 til ársins 2003 var rofið um 700 metrar, eða um átta metrar á ári. Seinustu ár hefur hægst heldur á rofinu vegna landriss. Þetta kemur fram í skýrslu Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar um strandrof og strandvarnir við brúna yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi.  

Vegna rofsins við ströndina eru bæði raflínur Landsnets og Hringvegurinn í hættu. Aðeins nokkrir metrar eru frá raflínunni að kantinum. Strax í sumar á að færa raflínurnar.

„Við byrjum núna í ágúst á jarðvinnu, svo byrjar færslan í september og við reiknum með að ljúka henni í október,“ segir Einar Snorri Einarsson  framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs Landsnets.

Vegurinn var seinast færður árið 1992. Þá voru um 500 metrar frá veginum niður að sjónum við Jökulsárbrú sem var byggð árið 1967. 

„Í vor eða á seinasta ári voru þetta innan við 50 metrar frá strönd að vegi. Strandrofið hefur veirð 2-4 metrar að jafnaði undanfarin ár.“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar.

Hvað er langt í að vegurinn verði sjónum að bráð?

Þetta eru 50 metrar, það er einfalt reikningsdæmi. Eftir 1990 var lagt í mikið plan um varnir í farveginum og bakkanum, Þá var lagt upp með að þegar það væru komnir 50 metrar að vegi þyrfti að huga að færslu vegarins. Við erum á þeim stað í dag að við þurfum að huga að því.“ segir Guðmundur Valur.

Færsla vegarins er nú komin inn á skipulag sveitarfélagsins Hornafjarðar, auk þess sem gert er ráð fyrir nýju brúarstæði. Til stendur að færa veginn tvö til þrjú hundruð metra inn í landið en ekki byggja nýja brú í bili að minnsta kosti. Engin tímasetning er komin á framkvæmdirnar enn sem komið er.  En rofið heldur áfram. 

Með það í huga, hvernig er hægt að leggja þennan veg þannig að hann verði til friðs? 

„Farvegurinn  er krítískur, hann er stuttur og mjór. Til samanburðar þá má segja að lónið sem er innan við brú, það er 30 ferkílómetrar. Árið 1930 var ekkert lón þannig að þarna er heill Borgarfjörður innan við brúnna í dag sem fer einuniss um innan við 100 metra haft. Haftið er krítískt upp á að öryggi hringvegarins sé nægilegt.“ segir Guðmundur.

Í áðurnefndri skýrslu segir einnig að jökullinn hafi náð lengst til suðurs um 1890 en hafi verið að hopa síðan þá. Árið 2003 hafði hann hopað um 4,7 kílómetra. Samhliða því hefur lónið verið að myndast og framburður jarðefna með Jökulsá til sjávar minnkað úr 14 milljónir rúmmetra á ári niður í að vera lítill sem enginn. Ástæðan er sú að straumhraði Jökulsár dettur niður þegar áin kemur undan jöklinum í lónið. Framburðurinn situr því eftir í lóninu.