Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hraunstraumur rennur fagurlega niður í Meradali

Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Hagalín - RÚV
Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að púlsandi virkni hafi verið í eldgosinu í Geldingadölum undanfarinn sólarhring. Hraunið rennur áfram niður í Meradali í fögrum fossi.

Lovísa segir eldgosið alltaf vera að breyta um takt og haldi jarðvísindafólki þannig á tánum. Það sé mjög skemmtilegt. 

„Loks í nótt létti þokunni aðeins til og við sáum gutla úr gígnum í takt við óróapúlsana. Það hafa komið svona þrír til fjórir púlsar á klukkutíma.“ Lovísa segir ómögulegt að spá fyrir um framhaldið.

„Það væri óskandi, en það er bara erfitt að segja þannig að við bara höldum áfram að fylgjast spennt með.“  Takturinn sé alltaf að breytast og ekkert hægt að spá fyrir um hvað verði í framtíðinni.

Hún segir telja hegðun eldgosa vanalega. „Það er svo erfitt að spá fyrir um hvernig svona eldgos hegða sér. Það er alltaf eitthvað að breytast, kvikuflæðið upp, gösin og efnasamsetning í gosinu. Ég held þetta sé alveg venjulegt þó ég sé ekki með neitt dæmi í huga akkúrat núna.“

Lovísa segir jafnframt útilokað að átta sig á hve lengi gosið muni vara. Hún segir litla hættu af gasmengun í dag, hægur vindur sé á svæðinu og aðstæður því ágætar. Hún segir að hraunstraumurinn renni fagurlega niður í Meradali.

„Nú er það aðallega að flæða niður i Meradali. Við sáum fallega hraunfossa niður í Meradali í nótt. Þannig að allt flæðið virðist renna í þá átt eins og er.“