Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fuglsungar falla úr brennandi heitum hreiðrum sínum

13.07.2021 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV/Landinn
Fuglsungar hafa lent í vandræðum vegna mikilla hlýinda í Finnlandi undanfarið en hitabylgja hefur gengið yfir landið að undanförnu. Þar má sérstaklega nefna fugla af svölungaætt en fimm múrsvölungaungar hljóta nú umönnun í dýragarði í Helsinki, höfuðborg Finnlands.

Múrsvölungar hreiðra títt um sig á húsþökum í Helsinki en hreiðrin geta orðið mjög heit á sumardögum. Þá reyna ungarnir að færa sig úr heitu hreiðrinu en falla þá fram af húsunum. Finnska fréttaveitan, Helsingin Sanomat, greinir frá. 

Þegar ungi hefur fallið úr hreiðri afneitar móðurfuglinn unganum og því þurfa ungarnir á aðstoð fólks að halda ef þeir eiga að haldast á lífi. Sjálfboðaliðar eru nú komnir til starfa í Korkeasaari-dýragarðinum í Helsinki og búa sig undir að slösuðum fuglsumngum komi til með að fjölga á næstu dögum og vikum.