Dýrið heimsfrumsýnd á Cannes hátíðinni

Mynd: Go to sheep / RÚV

Dýrið heimsfrumsýnd á Cannes hátíðinni

13.07.2021 - 19:38

Höfundar

Kvikmyndin Dýrið var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi í dag. Myndin er fyrsta kvikmynd leikstjórans Valdimars Jóhannssonar í fullri lengd og hann segir draum og heiður að myndin hafi verið valin á hátíðina.

Myndin var valin til þátttöku í Un Certain Regard keppni, sem er hluti af aðaldagskrá alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Cannes. Dýrið segir frá sauðfjárbændunum Maríu og Ingvari sem búa í fögrum en afskekktum dal. Þegar dularfull vera fæðist á bóndabænum ákveða þau að halda henni og ala upp sem sitt eigið afkvæmi. Myndin var tekin upp í Hörgársveit. Valdimar Jóhannsson leikstýrði myndinni og handritið skrifaði hann í samvinnu við Sjón.

„Þetta er bara geggjaður heiður, eiginlega bara draumur að vera valinn á Cannes. Bara frábært, ég eiginlega trúi þessu ekki.“ segir Valdimar.

Með aðalhlutverk fer sænska leikkonan Noomi Rapace, en hún bjó á Íslandi sem barn og er þetta fyrsta aðalhlutverk hennar á íslensku. Auk hennar fer Hilmir Snær Guðnason með aðalhlutverk. Myndin er framleidd af Hrönn Kristinsdóttur og Söru Nassim.

„Við erum rétt að lenda eftir þessar frábæru viðtökur sem myndin fékk. Það var fullur salur og standandi lófatak í lok sýningar. Við vonum að fólki hafi líkað myndin. Allar viðtökur fram að þessu hafa verið mjög góðar, það hefur verið mikið umtal um myndina.“ segir Sara.

Myndin verður sýnd með haustinu hér á landi. 

„Við erum að horfa á byrjun september. Það væri gaman að vera með þetta í sláturtíðinni,“ segir Hrönn og hlær. 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Rauða dreglinum velt fram á ný í Cannes

Kvikmyndir

„Mörgum árum síðar þorði ég að segja það upphátt“

Kvikmyndir

Kvikmynd Valdimars Jóhannssonar á aðaldagskrá í Cannes