Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aukið umfang skýrir hækkun áætlana við Landspítala

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf. segir hækkun á áætlunum við nýbyggingarnar við Hringbraut skýrist meðal annars af auknu umfangi framkvæmdanna. Hann býst við að verkinu ljúki árið 2025.

Árið 2017 var gert ráð fyrir að kostnaðurinn við nýjan Landspítala yrði 62,8 milljarðar, uppfært til verðlags í desember 2020, en nú er reiknað með útgjöldum upp á 79,1 milljarð.

Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, um kostnað við framkvæmdirnar. Morgunblaðið greindi fyrst frá.

Áætlanir reglulega uppfærðar

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf., segir í samtali við fréttastofu að kostnaður við byggingarnar sé ekki kominn fram heldur hafi áætlanir sem uppfærðar hafa verið undanfarin áratug tekið breytingum.

„Við birtum áætlanir mjög reglulega fyrir stjórnvöldum. Núna er í raun og veru það skref sýnt, sem er eðlilegt framhald af því sem hefur verið að gerast. Það eru breytingar milli ára.“

Hækkanirnar séu eðlilegar og hafi orðið á mörgum árum en ekki jafn miklar og ætla hefði mátt. Þær séu reglulega birtar stjórnvöldum svo hægt sé að taka ákvarðanir um framhald verkefnisins. 

„Það urðu miklar breytingar þegar við stækkuðum meðferðarkjarnann úr 53 þúsund í 70 þúsund. Það gerðist fyrir fjórum árum síðan. Síðan hafa orðið breytingar vegna hrávöruverðs og ýmislegs annars, annars staðar í verkefninu.“

Burðarþol hússins aukið

Samtímis var ákveðið að auka burðarþol hússins og gera meiri sveiflukröfur. Við það varð umfang verksins meira. 

„Og um leið þá var tekin ákvörðun um að stöðugleiki hússins í jarðskjálfta yrði meiri og betri þannig að húsið yrði starfshæft eftir stóra skjálftann, ef að hann kemur fram einhvern tíma.“ 

Nú sé stærra svæði undir en áætlað var 2013. „Fyrir okkur eru þetta eðlilegar hækkanir sem hafa verið að gerast á mörgum árum. Þar af leiðandi er ekki hægt að tala um einskiptis hækkun sem slíka.“

Gunnar segir hönnun hússins og verkefnið hafa þróast. Hann áréttar jafnframt að hrávörumarkaður og aðrir markaðir séu sífellt á ferðinni og því beri að sýna það sem sé fyrir hendi hverju sinni. 

Býst við verklokum 2025

Hann segir óvissu í áætlunum mesta við upphaf verkefna en að hún minnki eftir því sem verkinu vindur fram. Verkið gengur vel að sögn Gunnars sem kveðst bjartsýnn á að húsið verði tilbúið 2025 og að starfsemi geti hafist árið eftir. 

„Það þarf auðvitað allt að ganga upp og um leið þurfum við að sýna aga og festu í framkvæmdunum og hönnuninni og birta þessar áætlanir fyrir stjórnvöldum.“

„Nú er verið að steypa upp meðferðarkjarnann og jarðvinna fyrir rannsóknarhús að hefjast fljótlega. Við erum að ná fram samningi um bílastæða- og tæknihúsið og sjúkrahótelið er komið í fullan rekstur.“

Í dag verður opnað forval fyrir hönnun hús heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. „Og síðan er auðvitað gatnagerðin hér á Hringbrautarsvæðinu að nokkru leyti búin. Þannig að þetta er allt að fullgerast og springur vonandi út á næstu fimm árum.“

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV