Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

72 fallin í óeirðum og mótmælum í Suður-Afríku

13.07.2021 - 20:05
Mynd: EPA-EFE / EPA
Sjötíu og tveir, hið minnsta, hafa fallið í óeirðum í Suður-Afríku síðustu daga. Forseti landsins segir ofbeldið vart eiga sér fordæmi í lýðræðissögu landsins. 

Mótmæli brutust út um helgina eftir að fyrrum forseti landsins, Jacob Zuma, gaf sig fram við lögreglu. Hann var dæmdur til fimmtán mánaða fangelsisvistar vegna spillingarmála í forsetatíð sinni, frá 2009 til 2014. Stuðningsmenn hans segja dóminn vera nornaveiðar og hvöttu til mótmæla sem hafa stigmagnast með miklu ofbeldi.  

„Undanfarna daga og nætur hafa slík ofbeldisverk verið unnin á almannafæri sem sjaldan hafa sést í sögu lýðræðis okkar. Eigur fólks hafa verið skemmdar og eyðilagðar, búðir rændar, löghlýðnum borgunum ógnað og hótað,“ sagði Cyril Ramaphosa, forseti landsins í ávarpi í gær.  

Staðan er bundin við tvö svæði, annars vegar KwaZulu-Natal í austurhluta landsins, þaðan sem Zuma er, og hins vegar Gauteng, þar sem Jóhannesarborg er, í norðausturhlutanum, fjölmennasta héraði landsins. Minnst sjötíu og tveir hafa fallið. Yfirvöld segja marga hafa troðist undir mannfjölda sem fer ránshendi um verslanir. Þar af létust tíu við slíkar aðstæður í verslunarmiðstöð í Soweto í gær. Yfir tólf hundruð hafa verið handtekin síðan á fimmtudag. 

epa09341813 Police and security guards stand over arrested looters in Johannesburg, South Africa, 13 July 2021. Former South Africa President Zuma was arrested on 07 July, and sentenced to 15 months in prison for contempt of court. Protests by his supporters included shops being looted, burned cars and the blocking of city streets in the country.  EPA-EFE/KIM LUDBROOK
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Lögregla réði illa við ástandið og sendi herinn til hjálpar. Nú seinni partinn var því lýst yfir að yfirvöld væru líklega að ná tökum á ástandinu þannig að það verður ekki lýst yfir neyðarástandi að svo stöddu. Það hafa líka borist fregnir af því að almennir borgarar hafi myndað mannlegar keðjur við verslanir til að varna því að fólk ræni úr þeim. 

Ekki allir að ræna í þeim tilgangi að mótmæla

Fréttastofa ræddi við Henning Melber, sérfræðing i málefnum Afríku hjá Nordic Africa Institute í Svíþjóð. Hann segir að hafa í huga að það sé mjög mikil misskipting í Suður-Afríku og að það þurfi að horfa á hlutina í stóru samhengi. Það séu glæpamenn sem nýti sér stöðuna og ræni og rupli. Þeir séu ekki endilega að mótmæla dómnum.  Svo sé líka bláfátækt fólk, sem er hungrað, sem er einfaldlega að stela úr verslunum því það þarf að fá að borða. 

Aukin fátækt vegna faraldursins

„Eftir að faraldurinn hefur geisað í eitt og hálft ár með alvarlegu bakslagi fyrir almenning sem berst í bökkum, gengur svangt til hvílu og fær ekki lengur launatekjur og 900.000 börn njóta ekki lengur góða af skólamáltíðum, þá ríkir örvænting meðal fólks,“ segir Melber.

Mótmælin bitna á endanum á almenningi

Hann segir sorglegt að í því landi heimsins, þar sem misskipting sé hvað mest, skuli mótmæli vegna fyrrum forseta, sem hann segir eiga skilið að sitja inni, á endanum bitna á almenningi. „Og ekki á þjófunum í háum stjórnunarstöðum; þeir eru raunverulegu brotamennirnir og eiga þá refsingu skilið sem Jacob Zuma nú hlýtur. Og að vissu leyti má segja að það sé vitnisburður um að yfirvöldum sé umhugað um að halda uppi lögum og rétti þegar margir hafa misst trúna og traustið til stjórnvalda.“ Viðkvæðið hafi verið að fólk geti gert það sem því sýnist sé það nógu háttsett hjá Afríska þjóðarráðinu og ríkisstjórninni.