Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Stefna að þróun græns orkugarðs á Reyðarfirði

12.07.2021 - 16:53
Mynd með færslu
 Mynd: Fjarðabyggð
Á dögunum undirrituðu Fjarðabyggð, Landsvirkjun og Copenhagen Infrastructure Partners (CIP) viljayfirlýsingu þess efnis að kanna kostina við að þróa grænan orkugarð á Reyðarfirði. Til að byrja með verður skoðað hverjir eru kostir þess að framleiða rafeldsneyti með vetni á Reyðarfirði.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Fjarðabyggðar. Auk þess að kanna kosti þess að framleiða rafeldsneyti með vetni verða möguleikar á orkuskiptum í sjávarútvegi kannaðir og hvort hægt sé að endurnýta varma til húshitunar.

Landsvirkjun vinnur markvisst að minni losun kolefnis í starfsemi fyrirtækisins og hefur það að markmiði að ná kolefnishlutleysi árið 2025. Uppbygging græns orkugarðs á Reyðarfirði er hluti af því. „Vonir eru bundnar við að rafeldsneyti muni gera orkuskipti í skipasiglingum möguleg og við viljum kanna kosti þess að framleiða það hér á landi. Það felast mikil tækifæri í því fyrir okkar samfélag, bæði frá umhverfis- og efnahagslegu sjónarhorni, ef við getum nýtt innlent og umhverfisvænt eldsneyti við fiskveiðar okkar og vöruflutninga,“ segir Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun.

Þá myndi grænn orkugarður skapa ýmis tækifæri á Reyðarfirði. „Við fögnum þessari viljayfirlýsingu um uppbyggingu umhverfisvænnar iðnaðarstarfsemi á Reyðarfirði,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. „Í Fjarðabyggð er öflugt atvinnulíf og með þróun græns orkugarðs verður hægt að auka enn frekar verðmætasköpun í sveitarfélaginu. Það er verulegur ávinningur fyrir allt samfélagið í að þróa nýjar lausnir í orkumálum og skapa þannig frekari tækifæri fyrir frumkvöðla til nýsköpunar og uppbyggingar nýrrar atvinnustarfsemi.“

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV