Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sækýr eiga undir högg að sækja í Flórída

12.07.2021 - 18:54
epa06189475 An African manatee swims in a basin at the Wroclaw's Zoo, in Wroclaw, Poland, 07 September 2017. Two African manatees arrived here from Singapore.  EPA-EFE/Maciej Kulczynski POLAND OUT
 Mynd: EPA-EFE
Metfjöldi sækúa hefur drepist það sem af er ári í Flórída-ríki í Bandaríkjunum. Áætlað er að yfir 840 dýr hafi drepist frá 1. janúar til júlíbyrjunar í ár. Þar með fellur fyrra met frá 2013 þegar 830 sækýr drápust eftir að hafa komist í tæri við skaðlega þörunga.

Það sama er ekki uppi á teningnum núna en samkvæmt yfirvöldum náttúruverndar á svæðinu má rekja sækúadauðann til fæðuskorts. Dauði dýranna er hluti af keðjuverkun sem er tilkomin vegna úrgangsmengunar í vatnsfarvegum í ríkinu. Mengunin gerir það að verkum að magn þörunga eykst í vötnunum og aðalfæða dýranna, sjávargrös, deyja út.

Þá er algengt að sækýrnar syndi í veg fyrir báta en slíkir árekstrar eru ein helsta ógnin sem steðjar að dýrunum. Það sem af er ári hafa yfir 60 sækýr drepist eftir að hafa orðið fyrir bát. Áætlað er að um 6300 dýr af tegundinni lifi í vötnum Flórída en árið 2017 voru sækýr teknar af lista yfir dýr í útrýmingarhættu og færðar yfir á lista yfir tegundir sem eiga undir högg að sækja.