Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Guillain-Barré heilkennið sjaldgæf aukaverkun Janssen

epa08999833 A health worker administers the Pfizer vaccine to Alice Thipphavong (R) during the opening of Levi's Stadium COVID-19 vaccination site in Santa Clara, California, USA, 09 February 2021. The County of Santa Clara Health System began  vaccinating its Santa Clara County residents on opening day, but plans to increase capcity vaccinations to 15,000 people per day when vaccine supplies increase to make Levi's Stadium CaliforniaÕs largest vaccination site.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Búist er við að bandaríska lyfja-og matvælaeftirlitið, FDA, vari á næstunni við nýrri en sjaldgæfri aukaverkun eftir bólusetningu með bóluefni Janssen. Þetta herma heimildir Washington Post. Aukaverkunin nefnist Guillain Barré heilkennið og lýsir sér í tímabundinni lömun í útlimun þegar ónæmiskerfið ræðst á eigið úttaugakerfi.

Nærri hundrað hafa greinst með heilkennið í Bandaríkjunum en þar hafa 12,8 milljónir verið bólusettar með bóluefni Janssen. 

Fram kemur í frétt Washington Post að heilkennið hafi komið fram tveimur vikum eftir bólusetningu og er að mestu bundið við karlmenn, 50 ára og eldri. 

Ekkert bendir til þess að aukaverkunin tengist hinum tveimur bóluefnunum sem hafa verið notuð vestanhafs; Pfizer og Moderna. 

Washington Post segir að reiknað sé með að embættismenn lýsi því yfir að ávinningur af notkun bóluefnisins sé meiri en hugsanleg áhætta.

Á vefnum Doktor.is kemur fram að sjúkdómurinn byrji yfirleitt með skyndilegu máttleysi eða doða í útlimum sem geti svo breiðst út tiltölulega hratt og endað á að allur líkaminn lamist. Flestir sem greinast með heilkennið jafna sig að fullu

Miklar vonir voru bundnar við bóluefni Janssen þar sem aðeins þarf einn skammt af bóluefninu. En eftir að Lyfjastofnun Evrópu varaði við því að blóðtappar væru afar sjaldgæf aukaverkun ákváðu bæði Danir og Norðmenn að nota það ekki.

Bóluefnið hefur verið notað mikið á Íslandi en nærri 53 þúsund Íslendingar, 16 ára og eldri, hafa verið bólusettir með því.  Það hefur aðallega verið gefið yngra fólki og þeim sem hafa fengið COVID-19.

 Í síðustu yfirferð Lyfjastofnunar um tilkynningar vegna gruns um alvarlega aukaverkun eftir bólusetningu kom fram að fjórar slíkar höfðu borist eftir bólusetningu með Janssen. Þrír þurftu að leggjast inn á sjúkrahús og eitt andlát eldri einstaklings.

Á vef Lyfjastofnunar er tekið fram að ekkert bendi til orsakasamhengis milli tilkynntra andláta og bólusetninga gegn COVID-19.

Umræðan um Guillain-Barré heilkennið fór einnig af stað þegar bólusett var við svínainflúensu fyrir 12 árum.

Fram kemur á vef landlæknisembættisins að orsakir þessa sjúkdóms séu ekki að fullu þekktar. Heilkennið sjáist oft eftir sýkingu og þar á meðal inflúensu.  „Guillain Barre var lýst eftir bólusetningu gegn inflúensu í Bandaríkjunum á árinu 1976 en niðurstöður viðamikilla rannsókna á inflúensubólusetningum eftir 1976 hafa ekki sýnt fram á tengsl við Guillain Barre,“ segir á vef embættisins.

Þar kemur einnig fram að á Íslandi greinist að meðaltali 3 til 4 með þetta heilkenni á ári hverju. Því megi búast við að 0-1 greinist með sjúkdóminn á fyrstu sex vikum eftir bólusetningu hér án þess að hann sé af völdum bólusetningar.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV