Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Bólusettir ferðamenn með COVID-19 í Farsóttarhúsi

Gylfi Þór Þorsteinsson
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Fimmtán ferðamenn með COVID-19 eru nú í Farsóttarhúsi. Fólkið hafði flest verið bólusett og greindist við PCR-skimun áður en það hugðist fara úr landi. Forstöðumaður Farsóttarhúsa segir óvíst hvort fólkið hafi smitast hér á landi eða komið smitað til landsins.   

Samtals eru nú um 300 á þeim þremur sóttkvíarhótelum sem enn eru opin, en tvö eru í Reykjavík og eitt á Neskaupstað. Þess utan eru 28 í Farsóttarhúsi, að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, forstöðumanns Farsóttarhúsa - og þar af er rúmur helmingur með COVID-19.

„Við erum með 15 hér í einangrun. Langflestir eru bólusettir. Þannig að bólusetningin, eins góð og hún er, þá er hún ekki 100% þannig að við þurfum að fara varlega áfram. Þetta er ekki alveg búið eins og sagt er,“ segir Gylfi.

Hann segir að nokkrir í hópnum séu með einkenni, en engin alvarleg. „Þau eru með lítil einkenni, sem betur fer, en þó einhverjir með nokkur. Þetta fólk greinist meira eða minna allt saman á leið úr landi aftur,“ segir Gylfi.

Fólkið hefur dvalist mislengi hér á landi, eða allt frá nokkrum dögum upp í nokkrar vikur. Gylfi segir að flestir úr hópnum hafi ferðast talsvert um landið áður en þau greindust. 

„Af því að þau eru bólusett þá  þurfa þau ekki skimun við komu þannig að það er ómögulegt að segja hvort þau hafi borið þessi smit með sér erlendis frá eða hvort þau séu að smitast hér,“ segir Gylfi.