Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

29 ferðamenn greinst frá 1. júlí — helmingur bólusettur

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
29 ferðamenn hafa greinst með COVID-19 hér á landi frá 1. júlí, þegar hætt var að skima bólusetta við landamærin. Um helmingur þeirra er bólusettur. Yfirlæknir COVID-göngudeildar segir þetta hafa verið viðbúið.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að rekja megi sex innanlandssmit til þessara landamærasmita - þar hafi bæði bólusettir og óbólusettir smitast. 

„Við vissum alveg hvaða séns við vorum að taka,“ segir Þórólfur. „Þannig er mikilvægt að bólusetningin sé svona útbreidd hérna innanlands eins og hún er. Og það er það sem við þurfum að sjá hvort bólusetningin haldi ekki og verndi þá sem eru þá útsettir.“

Erum við að taka mikla áhættu? „Nei, ég myndi segja að þetta væri lítil áhætta sérstaklega af því að við höfum staðið okkur svo vel í bólusetningum hér innanlands,“ segir Þórólfur.

Nú dvelja 17 ferðamenn með COVID-19 í Farsóttarhúsi. Fólkið hafði flest verið bólusett og greindist við PCR-skimun áður en það hugðist fara úr landi. Þeir höfðu dvalist mislengi í landinu og höfðu allir ferðast eitthvað um landið að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, umsjónarmanns farsóttarhúsa, sem segir að smituðum þar fari fjölgandi.

„Við getum sagt að annan hvorn dag komi einhver hingað sýktur af COVID,“ segir Gylfi.

Runólfur Pálsson, yfirmaður COVID-göngudeildar Landspítala, segir að þetta komi ekki á óvart. „Við höfum verið að sjá þessa þróun undanfarnar vikur,“ segir Runólfur.

Nú eru um 40 með COVID-19 undir eftirliti COVID-göngudeildarinnar, en dregið hafði verið úr starfsemi hennar í takt við færri smit. Runólfur segir að enn sem komið er geti deildin annað þessu. „En ef þetta verður meira að umfangi, þá þurfum við að bæta við mannafla í þessi störf.“

Er eitthvað sem bendir til að svo verði? „Það er að koma vaxandi fjöldi, gríðarlegur fjöldi í rauninni sem kom um helgina, að mér skilst. Og það er ekki skimað á landamærunum, þannig að það kemur þá í ljós síðar hvort einhverjir af þessum einstaklingum eru smitaðir og það má búast við því.“

Runólfur segir að sú ákvörðun að hætta að skima við landamærin hafi verið tekin í ljósi þess að búið er að bólusetja yfir 80% fullorðinna Íslendinga. „Þá er það metið svo að hættan sé ekki teljandi,“ segir hann.