Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Læstur inni á réttargeðdeild vegna ráðaleysis kerfisins

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Mikið fatlaður maður hefur verið vistaður á réttargeðdeildinni á Kleppi í fjögur ár, án allrar nauðsynlegrar þjónustu. Hann var sýknaður af alvarlegri líkamsáras og metinn ósakhæfur 2018. Yfirlæknir réttargeðdeildarinnar og ættingjar mannsins segja réttindi mannsins brotin með vistuninni. Hann er með alvarlega flogaveiki, heilaskaða og greindarskerðingu. Maðurinn er fæddur 1989. Sex ára gamall fékk hann alvarlega heilabólgu og flogaveiki og fór 18 ára í stóra heilaskurðaðgerð í Boston.

Alvarleg líkamsárás 

Haustið 2017 var maðurinn dæmdur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem gæti varðað sextán ára fangelsi hjá sakæfum manni. Hann skar mann í andlitið og þótti hending að ekki fór verr. Hann bjó þá einn, án gæslu og þjónustu. Mat geðlæknis er að maðurinn er verulega vanþroskaður andlega, sem stafar meðal annars af mikilli greindarskerðingu, endurteknum flogum og mikilli lyfjameðferð. Auk þess hafði hluti framheilans, sem stjórnar dómgreind og hegðun, verið fjarlægður í skurðaðgerðinni í Boston. 

Sjá má sjónvarpsútgáfu fréttarinnar hér.

Úrskurðurinn framlengdur sjö sinnum

Í úrskurðinum segir að maðurinn geri sér ekki grein fyrir ástandi sínu né verknaðinum. Gæsluvarðhald yrði honum verulega íþyngjandi. Hann er metinn alls ófær um að stjórna gerðum sínum og nauðsynlegt að tryggja að hann gangi ekki laus. Lögregla telur hann hættulegan umhverfi sínu. Manninum var gert að sæta vistun á viðeigandi stofnun, til 28. september 2017, sem varð réttargeðdeildin á Kleppi. Og þar er hann enn, fjórum árum síðar. Úrskurðurðurinn hefur verið framlengdur sjö sinnum á þessu tímabili. 

Fær enga nauðsynlega þjónustu

„Hann hefði aldrei átt að vera í þeim aðstæðum sem upp komu til þess að lenda inn á réttargeðdeild. Fyrir utan það þá á hann ekkert erindi inni á réttargeðdeild og sú þjónusta sem hann þarf að fá er ekki í boði inni á réttargeðdeild; sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, þroskaþjálfun,” segir Ingibjörg Gróa Gunnarsdóttir, stjúpsystir mannsins. 

Kjartan Árni Kolbeinsson, frændi hans, varði stórum hluta æsku sinnar með honum. „Hann kom alltaf á sumrin í heimsókn í sveitina og var mjög viðkunnalegur. Það var alltaf gaman að fá hann og mikið í gangi hjá honum. Hann vildi alltaf vera að vinna,” segir Kjartan. „En maður tók alveg eftir því að hann er ekki með þroska við það að vera um tíu árum eldri en ég.”

Læknirinn segir þetta mannréttindabrot

Kjartani brá í brún þegar hann heimsótti frænda sinn í fyrsta sinn á réttargeðdeildina. 

„Hann var örugglega orðinn svona 40 kílóum léttari og bara ekkert líkur sjálfum sér.”

„Hann hafði alltaf gaman að því að sýna hvað hann væri sterkur, hvað hann gæti gert alla hluti og svona. Og lyft þungum steinum í sveitinni og sýna sig. Þú ert ekki að labba inn og hitta þann karakter,” segir Kjartan. 

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í júní 2020 er vitnað í yfirlækni réttargeðdeildarinnar. Hann segir lítils bata að vænta hjá manninum vegna heilaskaðans og að vista manninn á deildinni sé mannréttindabrot. Hann mælir með úrræðum á vegum Reykjavíkurborgar, sem séu fyrir hendi, með sólarhringsvöktun og gæslu. 

Sýknaður og ósakhæfur 2018

Árið 2018 var dómur Héraðsdóms Reykjaness síðan 2017 felldur úr gildi, maðurinn sýknaður og metinn ósakhæfur. Ári síðar var þess krafist að maðurinn yrði látinn laus, en héraðsdómur hafnaði því og úrskurðaði hann í áframhaldandi öryggisgæslu á ábyrgð yfirlæknis réttargeðdeildar. „Þó þannig að hann dveljist á sambýli fyrir geðfatlaða eða annarri sambærilegri búsetu með sólarhringsgæslu og hæsta öryggisstigi samkvæmt mati viðkomandi svæðisskrifstofu í málefnum fatlaðra,” segir í úrskurðinum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Ingibjörg Gróa Gunnarsdóttir, stjúpsystir mannsins.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur vísað málinu frá sér og er það nú hjá félagsmálaráðuneytinu. 

„Það er skammarlegt að einstaklingur með heilaskaða sé hafður inni á réttargeðdeild. Hann er ekki að fara að lagast.”

„Hann er sviptur öllum sínum réttindum þegar það er búið að gefa út að hann eigi ekki að vera þarna,” segir Ingibjörg Gróa.

Fékk ekki að fara til móður sinnar á aðfangadag

Hún segir fjölda mannréttindabrota framin á stjúpbróður sínum á degi hverjum. „Eins og til dæmis á aðfangadag fékk hann ekki að koma til foreldranna, það var ekki mannafli í það. Þó að móðir hans treysti sér til að fá hann án fylgdar, þá er það ekkert í boði, þetta eru bara reglur,” segir hún. „Það er margt sem er brotið á honum.”

„Það er ekkert sem ætti að stoppa hann í að fara í heimsókn eða jarðarfarir úti á landi. Eða fleiri hluti,” segir Kjartan.

„Hann hafði til dæmis sérstaklega gaman af afa mínum, þeir voru miklir mátar og hann var oft hjá honum í sveitinni. Hann gat ekki komið í jarðarförina hans.”

Kjartan segist ekki skilja hvernig það sé hægt að geyma manneskju svona án þess að nokkur segi neitt. 

„Maður veit að hann getur örugglega verið erfiður. En það er ekki þannig að hann sé ekki húsum hæfur að hann geti ekki hitt fólk. Ég skil bara ekki alveg hvernig staðan er orðin svona í dag. Þetta er eiginlega ótrúlegt.”

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Kjartan Árni Kolbeinsson, frændi mannsins.
sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður