Kanna Bakka fyrir vistvænan iðngarð

11.07.2021 - 18:11
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Mengun og úrgangur dagsins í dag getur orðið tækifæri til verðmætasköpunar á morgun, segir sveitarstjóri Norðurþings sem fagnar greiningu á hvort svæðið á Bakka henti undir svokallaðan vistvænan iðngarð.

Vistvænir iðngarðar

Sveitarstjórn Norðurþings hefur verið í samstarfi við Landsvirkjun, Íslandsstofu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið við að kanna hvort svokallaðir vistvænir iðngarðar séu hagstæðir á Íslandi. Vistvænir iðngarðar eru uppbyggðir þannig að ólík fyrirtæki eru staðsett á sama stað og geta nýtt sameiginlega innviði, skipst á hráefnum og nýtt betur orku og hliðarafurðir sem falla til.  Norðurþing hefur samþykkt að möguleikar á að þróa iðnaðarsvæðið á Bakka sem vistvænan iðngarð verði greindir og verða niðurstöður greiningarinnar kynntar í lok ágúst. 

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir að Bakki gæti hentað vel undir slíkan vistgarð. „Sérstaklega þar sem við erum með svæði sem er ekki einu sinni að fullnýta þá innviði sem búið er að byggja upp. Þess vegna er Bakki undir þessu, það er búið að kosta miklu til í innviðauppbyggingu hérna á Húsavík og í nágrenninu til þess að opna á iðnaðarsvæði. Inn í framtíðina hvers konar tækifæri viljum við sjá að þroskist þar. Er ekki skynsamlegt, æskilegt og eðlilegt að það séu tækifæri sem byggja á því að fara betur með, byggja á því að nýta betur og fullvinna afurðir og nýta efnastrauma sem er ekki verið að gera í dag.

Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út að markmiðið sé að koma öllum iðnaðarsvæðum heimsins inn í þessa hringrásarhugsun. Úrgangur eins og koltvísýringur gæti þá verið nýttur til dæmis sem orkugjafi í annarri framleiðslu, glatvarmi sem fuðrar upp í loft gæti verið nýttur til að hita upp gróðurhús og svo framvegis. 

 

 

 

Anna Þorbjörg Jónasdóttir