Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fágæt mótmæli gegn stjórnvöldum á Kúbu

epa09339363 People arrest an anti-government protestor during a pro-government rally in Havana, Cuba, 11 July 2021. Cuban President Miguel Diaz-Canel encouraged his supporters to take the streets as a response to protest against his governement. Thousands of Cuban took the streets on 11 July to protest against Cuba's government, in what is considered the first major protest in the last 60 years.  EPA-EFE/Ernesto Mastrascusa
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Sá fáheyrði atburður varð á Kúbu í dag að þúsundir söfnuðust þar saman til að mótmæla ríkisstjórn landsins, hrópandi slagorð á borð við „Niður með einræðisstjórnina!" og „Við viljum frelsi!" Efnahagsástandið á Kúbu hefur ekki verið bágbornara í 30 ár eða svo, þar ríkir vöru-, orku- og lyfjaskortur og kórónaveirufaraldurinn gerir illt verra.

Fjölmennustu mótmælin í nágrannabæ höfuðborgarinnar

Fjölmennust voru mótmælin þar sem þau byrjuðu, í bænum San Antonio de los Banos, 50.000 manna bæ um 35 kílómetra suðvestur af Havana. Þar gengu nokkur þúsund mótmælendur um götur og torg, flestir í yngri kantinum. 

Slagorð voru líka hrópuð gegn forsetanum og formanni Kommúnistaflokksins, Miguel Diaz-Canel, sem nýverið tók við leiðtogastöðunni af Raúl Castro, bróður byltingarforingjans Fidels. Fjöldasamkomur á borð við þessa eru annars að jafnaði eingöngu haldnar á vegum Kommúnistaflokks Kúbu og þá til stuðnings stjórnvöldum og byltingunni.

Skortur á mat, rafmagni og lyfjum

Í frétt AFP segir að langar biðraðir eftir matvælum, æ naumari rafmagnsskömmtun og alvarlegur skortur á lyfjum frá því að heimsfaraldur kórónaveirunnar braust út kyndi undir óánægju almennings. Þá geisar þriðja bylgja farsóttarinnar á Kúbu um þessar mundir, þar sem metfjöldi greindist með COVID-19 síðasta sólarhringinn, tæplega 7.000 manns.

Öryggissveitir komu til San Antonio de los Banos fljótlega eftir að mótmælin brutust út og Diaz-Canel heimsótti bæinn skömmu síðar, umkringdur lífvörðum og fjölmennu liði stuðningsfólks, sem hvatt hafði verið til að fjölmenna í bæinn til að sýna stjórnvöldum stuðning í verki.

„Ástandið í orkumálum virðist hafa framkallað nokkur viðbrögð hérna,“ sagði forsetinn við fréttamenn, og kenndi viðskiptabanninu sem Donald Trump innleiddi - og Joe Biden hefur ekki aflétt - um stöðu mála.

Sakaði hann „kúbversk-ameríska mafíu“ um að nota samfélagsmiðla til að kynda undir óánægu og æsa til mótmæla, en viðurkenndi að fólk væri vissulega komið saman „til að tjá óánægju sína með aðstæðurnar sem það býr við.“

Mótmælin voru að mestu bundin við San Antonio de los Banos, en nokkur hundruð mótmæltu líka í Havana og nokkru færri í nokkrum borgum og bæjum öðrum.