Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Enn þá hið fínasta túristagos

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarminn frá gosstöðvunum sást vel frá höfuðborgarsvæðinu í nótt og er það til marks um að enn sé góður gangur í gosinu, þrátt fyrir goshlé sem varði í nokkra daga í síðustu viku.

Segja má að um tíma í nótt hafi blasað við uppljómaður goshiminn þegar horft var í suður frá Reykjavík og nágrannasveitarfélögum. Góður gangur virðist því í gosinu, eins og Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, staðfestir.

„Mælarnir segja að gosið er enn í gangi, og óróinn er að mestu leyti eins og hann hefur verið frá föstudagskvöldi þegar hann tók sig upp aftur,“ segir Bjarki aðspurður um stöðu mála á gosstöðvunum. „Það er aðeins lengra bil á milli óróapúlsa en púlsavirknin er viðvarandi.“

Strókavirknin er að sama skapi vel sýnileg og hraun þeytist á bilinu 10 til 20 metra upp fyrir gígbarminn. 

Skjálftavirkni er lítil á svæðinu sem stendur en gosið lifir engu að síður enn góðu lífi, að sögn Bjarka. „Þetta er enn þá fínasta túristagos,“ bætir hann við.

Jón Agnar Ólason