Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eftirvæntingin mikil í bæði Róm og Lundúnum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Eftirvæntingin mikil í bæði Róm og Lundúnum

11.07.2021 - 17:14
Úrslitaleikur Evrópumótsins í knattspyrnu karla fer fram á hinum sögufræga Wembley-leikvangi í Lundúnum í kvöld. Heimamenn munu þá mæta ítalska liðinu. Englendingar hafa aldrei orðið Evrópumeistarar og Ítalir unnu titilinn síðast árið 1968. Eftirvæntingin er mikil í löndunum og ræddi fréttastofa við Íslendinga búsetta í Lundúnum og Róm. Þau segja spennuna vera mikla fyrir kvöldinu.

Í London býr Salka Margrét Sigurðardóttir ásamt Thomas Coe. Þau bíða spennt eftir leiknum líkt og fleiri Lundúnabúar.

„Hér er ofboðslega mikil stemmning,“ segir Salka. „Ég hef ekki séð Breta eins glaða í þau sjö ár sem ég hef búið hérna. Fólk hefur verið að breyta vinnutímanum sínum til þess að geta örugglega horft á leikinn. Það er bara talað um þetta og sama hvaða almenningssamgöngur þú tekur þá heyrist alltaf „it's coming home, its coming home,“ sagði Salka.

Textabrotið „it's coming home“ úr laginu Three Lions eftir David Baddiel og Frank Skinner, er vinsælt kall enskra stuðningsmanna sem vilja meina að knattspyrnan sjálf sé á leiðinni heim, til Englands. Lagið var gefið út fyrir Evrópumótið árið 1996 og sungu Baddiel og Skinner á um þrjátíu ára sársauka. Sársaukinn stafaði af þeirri staðreynd að Englendingar höfðu ekki unnið stórmót, hvað þá komist í úrslit á slíku móti, frá því að Heimsmeistaratitillinn vannst á heimavelli árið 1966.

Sársaukinn er orðinn tuttugu og fimm árum eldri og vonast Englendingar að loks muni hann hverfa. Salka segir gaman að sjá Englendinga sameinast yfir evrópumótinu.

„Bretar hafa farið í gegnum mjög erfitt tímabil með Brexit og Covid-19. Núna er eins og allir séu komnir saman um bæði jákvæðni og von,“ sagði Salka.

Stærsti leikurinn frá 1966

Thomas sagði spennuna vera mikla á meðal Englendinga enda leikurinn sá stærsti hjá landsliðinu síðan að Vestur-Þjóðverjar voru sigraðir á Wembley 1966. Thomas kveðst fullviss um að knattspyrnan muni finna leiðina heim í kvöld.

„Fótboltinn er alveg klárlega á leiðinni heim,“ sagði Thomas á móðurmálinu áður en hann bætti við á íslensku: „Áfram Ísland.“

Aðfangadagur í júlí

Íslenski leikstjórinn Ingó Árnason er búsettur í Róm með fjölskyldu sinni og hefur verið í áraraðir. Hann er ekki jafnviss um að fótboltinn eigi heima í Englandi.

Ingó segir daginn í dag líkjast aðfangadegi hjá tíu ára gömlu barni. „Þetta er bara eins og aðfangadagur. Hér tala bara allir um þennan leik og það verður að vinna leikinn.“

Evrópumóts-sársauki Ítala frá 1968 hefur verið linaður með tveimur heimsmeistaratitlum. Fyrst á Spáni árið 1982 og síðar árið 2006 frá Þýskalandi. Gengi ítalska landsliðsins hefur þó ekki verið glæsilegt undanfarin ár. Liðið komst til að mynda ekki á Heimsmeistaramótið sem haldið var í Rússlandi árið 2018.

Ingó segir að orðið stemmning nái í raun ekki að lýsa andrúmsloftinu í Róm fyrir úrslitaleiknum.

„Þetta er bara þjóðarhátíð. Þegar þeir unnu Spánverja þá sprakk allt út í taumlausri gleði. Hér fagna menn fótbolta með því að keyra um borgina og þeyta bílflauturnar. Þetta var til klukkan fjögur eða fimm um nóttina. Fyrir svona þjóð eins og Ítali þar sem fótboltinn er hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar og þjóðarsálarinnar. Það er ekki hægt að lýsa þessu, þetta er ótrúlegt,“ sagði Ingó.

Hann segir að leikurinn verði erfiður enda sé England jafnmikil fótboltaþjóð og Ítalir en segir að sagan sé með ítalska liðinu. Ítalir hafi ekki tapað í síðustu viðureignum þjóðanna. Ingó segir þá að það sé ljóst að ástandið í landinu undanfarið árið hafi áhrif á gleðina í kringum mótið.

Ítalir voru ein fyrsta þjóð vesturlanda til að lenda illa í kórónuveirufaraldrinum.

„Við sáum það þegar þeir unnu Spánverja. Það var eins og tappi væri tekinn úr kampavínsflösku. Það er svo mikil undirliggjandi spenna og þetta skiptir alveg rosalegu máli. Það skiptir máli að það fari vel í kvöld og þegar við vinnum, þá verður þjóðhátíð,“ sagði Ingó sem spáir úrslitum leiksins 3-1.

Sömu úrslit 39 árum seinna?

Hann útskýrir spána á þá leið að á þessum degi fyrir 39 árum hafi Ítalía unnið úrslitaleik HM 1982 með sömu úrslitum. Hann segist ætla að horfa á leikinn heima í stofu.

„Mér finnst svo gaman að horfa á leikina hérna í hverfinu okkar og heyra alla í blokkinni öskra og garga þegar við skorum. Það er svo gaman að því,“ sagði Ingó Árnason leikstjóri í Róm.