Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Danir ætla að bólusetja 12-15 ára

Bóluefni Pfizer og BioNTech. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Dönsk stjórnvöld hyggjast bólusetja börn á aldrinum frá tólf til fimmtán ára gegn COVID-19. Ýmsir barnalæknar í Danmörku hafa lýst efasemdum um þessar fyrirætlanir. Heilbrigðisyfirvöld segjast ætla að fylgjast vel með en ekkert bendi til annars en að öruggt sé að bólusetja börn.

Allt breyttist með bóluefni frá Rúmeníu

Bólusetningadagatal Dana breyttist mikið þegar þeir keyptu tæplega 1,2 milljónir skammta af bóluefni frá Rúmeníu. Nú er stefnt að því að allir fullorðnir sem þess óska verði fullbólusettir í lok ágúst.

Tregða til bólusetninga í Rúmeníu

Ástæðan fyrir því að Rúmenar voru aflögufærir um bóluefni er að tregða er í Rúmeníu til að láta bólusetja sig, fólk tortryggir stjórnvöld og trúir ekki upplýsingum sem koma frá þeim. Þetta gildir raunar í fleiri ríkjum í Austur-Evrópu, til dæmis Búlgaríu og ekki minnst í Rússlandi. Í mörgum löndum Evrópu þar sem almenningur óskar eftir bólusetningu er skortur á bóluefni og því taka Danir fagnandi við sendingunni frá Rúmeníu.

Ákváðu að bólusetja 12-15 ára

Helene Bilsted Probst, aðstoðarlandlæknir, segir að með meira bóluefni hefði verið ákveðið að hefja bólusetningar 12-15 ára barna. Klaus Birkelund Johansen, formaður félags barnalækna, lýsir efasemdum. Hann bendir á að í löndum eins og Þýskalandi og Englandi séu aðeins börn í áhættuhópum bólusett. Hann telji að Danir eigi að gera hið sama og bíða með að bólusetja heilbrigð börn.

Ekki ástæða til að óttast

Aðstoðarlandlæknir telur ekki ástæðu til óttast, vel verði fylgst með og gripið inn í ef ástæða þyki til, nú bendi ekkert til annars en að öruggt sé að bólusetja börn. Börn og foreldrar sem danska ríkisútvarpið ræddi við ætla að þiggja boð um bólsetningu. Sebastian Simonsen, tólf ára, vill gjarna láta bólusetja sig og segir að honum finnist frábært að geta hjálpað til svo ekki þurfi að loka skólum. Vibeke Musaeus, móðir Christians sem er fimmtán ára, treystir heilbrigðisyfirvöldum, sonur hennar megi láta bólusetja sig.

Ætlunin er að hefja bólusetningar 12-15 ára í næstu viku.