Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ian Jeffs tekur við kvennaliði ÍBV

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Ian Jeffs tekur við kvennaliði ÍBV

10.07.2021 - 14:02
Kvennalið ÍBV í knattspyrnu hefur samið við Ian Jeffs um að taka við þjálfun liðsins út yfirstandandi tímabil. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu ÍBV.

Ian hefur verið aðstoðarþjálfari hjá karlaliði félagsins og mun sinna því starfi áfram með fram þjálfun kvennaliðsins. Í tilkynningunni frá ÍBV segir að það sé mikill fengur fyrir félagið að hafa fengið mann með stórt ÍBV-hjarta í starfið. Þá þakkar knattspyrnuráð Ian fyrir gott samstarf við lausn málsins en hann tekur við af Andra Ólafssyni sem lét af störfum um mánaðamótin.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ian þjálfar kvennalið ÍBV en hann stýrði liðinu á árunum 2015 til 2018. Á því tímabili kom hann því meðal annars í úrslit bikarkeppninnar 2016 og 2017 en liðið varð bikarmeistari síðara árið. Þá var Ian aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins á meðan Jón Þór Hauksson stýrði því. 

ÍBV er um þessar mundir í 6. sæti Pepsi Max deildar kvenna með 12 stig eftir að hafa spilað níu leiki. Fjórir hafa unnist en fimm tapast. Næsti leikur liðsins er á morgun en þá fer liði í heimsókn norður á Akureyri og mætir Þór/KA.