Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gleði og litadýrð á fyrstu hinseginhátíð Vesturlands

10.07.2021 - 21:16
Úr fyrstu gleðigöngu Vesturlands í Borgarnesi
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Gleði og litadýrð einkenndu mannfjöldann sem streymdi um Borgarnes í dag. Hinseginhátíð Vesturlands og gleðigangan fóru nú fram í fyrsta skiptið, á vegum nýstofnað hinseginfélags Vesturlands. Systurnar Guðrún Steinunn og Bjargey Anna Guðbrandsdætur eru einar af skipuleggjendum hátíðarinnar og stofnendum félagsins.

„Ég var bara alltaf að fara að gráta á vagninum alla leiðina. Ég bara, fólkið, það er svo mikið af fólki. Ég er ekki að trúa hversu margir hafa komið og hvað þetta hefur tekist vel. Þetta er æði,“ segir Guðrún. 

Bjargey tekur undir með henni.

„Þetta er bara svo miklu, miklu stærra en við áttum nokkurn tímann von á. Þegar Gunna fór að tala um þessa hugmynd fyrir einhverjum árum þá sáum við fyrir okkur, við með eina kerru og labba með fjölskylduna á vagninum. Ég veit ekki einu sinni hvað það er mikið fólk hérna, það er dásamlegt.“

Mikilvægt innlegg á landsbyggðinni

Alexander Aron Guðjónsson er einn skipuleggjenda hátíðarinnar. 

„Þetta er búið að vera magnað, þetta er ógeðslega gaman. Fór fram úr mínum björtustu vonum. Ég er svo ánægður með þetta.“ 

En af hverju skiptir máli að gera þetta úti á landi?

„Það er aðeins öðruvísi orðræða hérna úti á landi, sérstaklega í minni bæjarfélögum, um hinsegin fólk. Þannig það er mjög jákvætt að fá þetta á sem flesta staði þannig það sé opin umræða um allt og alla alls staðar,“ segir Alexander.

Sérstakt að halda hinseginhátíð í heimabænum

Ingvar Breiðfjörð Skúlason segir sérstakt að skipuleggja hinseginhátíð og gleðigöngu í heimabænum. 

„Ég var svolítið hræddur við þetta. Pínu mikið. Þetta er svolítið skrítið, ég er nýfluttur heim aftur og hugsaði, æi, ég kem bara heim með einhverri bombu. Núna er COVID búið, best að gera þetta almennilega.“ 

Móttökurnar hafa farið fram úr væntingum. 

„Það er bara allt búið að vera eitthvað svo geðveikt, og ég trúi þessu ekki, mér finnst þetta geggjað. Af hverju flutti ég héðan nokkurn tímann? Borgarnes er happiness, það er bara svoleiðis.“ 

Hátíðin flakkar svo á milli þéttbýlisstaða á Vesturlandi og verður í Snæfellsbæ að ári. 

Sjónvarpsfréttina má sjá hér.