Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Barnfóstra og götuljósmyndari

Mynd: Maloof Collection, Ltd. / Vivian Maier

Barnfóstra og götuljósmyndari

10.07.2021 - 10:00

Höfundar

Vivian Maier starfaði lengst af sem barnfóstra í Chicago. Fáir vissu af ljósmyndunaráhuga hennar, en eftir hana liggja um 150.000 negatífur. Hún lést án viðurkenningar árið 2009, en er í dag einn þekktasti götuljósmyndari heims.

Fyrir þeim sem þekktu hana var barnfóstran Vivian Maier einfari. Sérvitur og einræn, örlítið dularfull kannski, hélt sig út af fyrir sig, en ekki mikið meira en það. Það var ekki fyrr en hinn 26 ára gamli John Maloof var í leit að ljósmyndum fyrir bók um sögu hverfisins Portage Park í Chicago sem verk hennar fóru að líta dagsins ljós. Tveimur árum áður en Vivian lést keypti John nefnilega risastóran kassa af negatífum ljósmyndum eftir hana á uppboði, í raun fyrir tilviljun. 

Eftir að negatífurnar höfðu legið inni í skáp í nokkurn tíma fór John að skanna þær. Að lokinni stuttri skoðun var hann viss um eitt, þær voru góðar. Þó þær ættu því miður ekki erindi í bókina, ákvað John samt sem áður að hlaða þeim upp á netið. Þar sprungu þær út, vægast sagt, og vöktu athygli fjölda fólks sem var yfir sig hrifið. 

Þrátt fyrir takmarkaðan áhuga ljósmyndasýningarsala fyrst um sinn gat John Maloof ekki hrist Vivian Maier af sér, og ákvað að leggjast í það verkefni að safna fleiri myndum eftir þessa dularfullu konu, sem hann fann engar upplýsingar um. Hægt og rólega komst hann að því hver hún var. 

Leit John Maloof að ljósmyndaranum Vivian Maier er efni heimildamyndar hans frá árinu 2013, Finding Vivian Maier, sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna og hlaut fjölda viðurkenninga. Vivian Maier var nefnilega hvorki ljósmyndari né blaðamaður, heldur barnfóstra. Hún tók fjölda sjálfsmynda, oftast fyrir framan spegla eða búðarglugga, en af þeim vitum við að hún var iðulega klædd í stórar kápur, gekk í karlmannsskyrtum og með hatt, með stutt, dökkt hár og langleitt andlit. Eftir ítarlega rannsóknarvinnu Johns kom í ljós að eftir Vivian lágu meira en 150.000 negatífur, en flestar voru ljósmyndirnar af götulífi Chicago-borgar, New York og Los Angeles.

 

Ljósmynd eftir Vivian Maier
Mynd Vivian Maier frá 1959, tekin í Grenoble, Frakklandi

Sofandi hjón í faðmlögum í lest og skógur á fleygiferð út um gluggann. Virðuleg kona á leið yfir breiðgötu, með tvo minkafeldi yfir öxlinni og þóttafullan svip. Lítill strákur sem heldur í hanskaklædda hönd móður sinnar, andlitið afmyndað af gráti. Kómískar og sorglegar myndir af næturlífi Chicago-borgar, drukknir menn sem sitja á stétt og halla sér upp að bíl, annar dreginn eftir götunni, studdur af tveimur lögreglumönnum. Götusali sem selur dagblöð, sofandi með höndina undir kinn. Fólk sem horfir beint í myndavélina, opið, hissa, afslappað.

Ljósmyndir Vivian Meier fanga mannlífið í öllum sínum fjölbreytileika. Margar þeirra eru uppfullar af tilfinningu, ýmist fyrir húmor eða harmleik.

Hún hafði gott auga, næmni fyrir mannlegu eðli, og þroskaða tilfinningu fyrir umhverfinu, ljósi, skuggum og myndbyggingu. Helstu viðfangsefni hennar voru börn, fátækir, jaðarsettir og eldra fólk, sumir meðvitaðir um nærveru hennar og aðrir ekki. Fram að áttunda áratugnum voru myndirnar hennar svarthvítar, en eftir það fór hún að taka myndir í lit, og þá svolítið frjálslegri og meira abstrakt. 

Á meðan Vivian lifði vissi samt enginn af þessum hafsjó frábærra ljósmynda nema hún. Jafnvel má leiða að því líkum að fjölmargar myndanna hafi hún ekki einu sinni séð sjálf, því eftir hana lágu kassar fullir af óframkölluðum filmurúllum. 

Þeir sem þekktu Vivian hafa mótsagnakenndar sögur að segja af henni, fjölskyldur sem réðu hana sem barnfóstru og uppkomin börn sem muna eftir henni sem einni af fjölskyldunni. Öll eru þau þó sammála um það að hún var gríðarlega einræn og vinafá. Hún virðist hafa gengið undir mörgum nöfnum, Viv, Vivian, Ms. Maier og meira að segja Ms. Smith. Þó að margt sé á huldu um líf hennar vitum við að hún fæddist í New York árið 1926 og var alin upp af austurrískum föður og franskri móður. Hún talaði ensku með óræðum evrópskum hreim, einhvers konar blöndu af þýskum og frönskum. Vivian var einstæðingur, barnlaus og virtist ekki vera í neinum samskiptum við fjölskyldu sína. Í heimildamyndinni segir John Maloof að hann hafi tímabundið fundið til sektarkenndar yfir því að færa ljósmyndir hennar fram í dagsljósið, þar sem hún virðist hafa lagt sig fram við að halda þeim frá augum annarra. Hún vildi að minnsta kosti ekki vera í sviðsljósinu.

Sem betur fer var Vivian þó mikill safnari sem hélt eftir gríðarlegu magni af kvittunum, lestarmiðum, bréfum og smáhlutum sem tengdust augnablikum eða tímabilum í lífi hennar. Úr þessum brotum tókst John Maloof að púsla saman mynd af lífi hennar, þó hún sé brotakennd.

Ljósmynd eftir Vivian Maier, af götusala í New York árið 1954
 Mynd: Maloof Collection, Ltd. - Vivian Maier
Götusali í New York í mars 1954

Það er ótrúlegt hve mikið magn af sögum á borð við þessa fyrirfinnast í heiminum, bæði uppgötvaðar og óuppgötvaðar. Mörg eigum við okkur leyndarmál, dulda hæfileika, sem sumir fá að líta dagsins ljós og aðrir ekki. Líkt og hlustendur vita hafa margir áhrifamestu listamanna sögunnar ekki notið viðurkenningar fyrir hæfileika sína fyrr en löngu eftir andlátið. 

Kannski fékk Vivian Maier aldrei hvatningu, eða henni var ekki sýndur sérstakur áhugi. Kannski lét einhver ættingi hennar niðrandi orð falla um þetta áhugamál hennar. Og kannski reyndi hún að koma ljósmyndunum sínum á framfæri, en var hafnað. 

Eitt er þó víst, að nú á dögum nýtur Vivian Maier verðleika sinna. Um hana hafa verið skrifaðar bækur og viðamiklar ljósmyndasýningar haldnar, í Bandaríkjunum, Kanada, Kína og víða um Evrópu. Gagnrýnendur hafa líkt verkum hennar við virta ljósmyndara á borð við Robert Frank, Garry Winogrand og Diane Arbus. Hún varð að viðmiði fyrir þá götuljósmyndara sem á eftir henni komu, hvort sem hún vissi það eða ekki.

Tengdar fréttir

Leiklist

Hollt að kunna að vera leikhússgestur heima hjá sér

Pistlar

„Þú ert of gömul, ég vil ekki láta sjá mig með þér“

Pistlar

Afturfætur fíls: Staða kvenna í þremur löndum