Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tilkynna aðgerðir gegn hælisleitendum til NEL

Mynd með færslu
 Mynd: Svava Kristín
Hjálparsamtökin Solaris hafa sent nefnd um eftirlit með störfum lögreglu, NEL, tilkynningu um „ámælisverða starfshætti lögreglu, starfsaðferð og framkomu í starfi,“ vegna aðgerða í húsakynnum Útlendingastofnunar í Hafnarfirði síðasta þriðjudag.

Í tilkynningu Solaris segir að tveir umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi verið frelsissviptir, handteknir, beittir harðræði og ofbeldi af fulltrúum Útlendingastofnunar og Lögreglu eftir að hafa verið lokkaðir til stofnunarinnar undir fölskum forsendum. Málið hefur einnig verið tilkynnt til Umboðsmanns Alþingis.

Sema Erla Serdar, formaður samtakanna sagði í samtali við fréttastofu fyrr í vikunni að vinnubrögðin væru forkastanleg. „Það var augljóst að menn vissu að það væri verið að koma [hælisleitendunum] í aðstæður sem þeir myndu ekki bregðast vel við,“ segir Sema Erla.

Gengið fram með offorsi og sönnunargögnum eytt

Vitni lýstu því að lögregla hafi gengið fram með offorsi, barið þá, hent þeim í gólfið. Í ofanálag hefðu lögreglumenn hrifsað til sín síma vitnis og eytt út myndum og myndböndum, sem teknar höfðu verið af framferði lögreglu. Annar mannanna var fluttur á Landspítala með áverka eftir handtökuna.

Ríkislögreglustjóri hefur hafnað því að lögregla hafi beitt ofbeldi við handtökuna. „Farið hefur fram frumskoðun á myndefni af atvikinu af hálfu embættisins og bendir hún ekki til að um óþarfa eða óhóflega valdbeitingu hafi verið að ræða, miðað við þær aðstæður sem sköpuðust á vettvangi,“ sagði í yfirlýsingu frá embættinu.

Sagðist beittur rafstuðtæki

Í tilkynningu Solaris segir að kvartað sé til Umboðsmanns Alþingis m.a. vegna ofbeldis Útlendingastofnunar og lögreglu og athygli vakin á því að þolandi hafi lýst því að notað hafi verið á hann rafstuðtæki og hann sprautaður með efnum eða lyfjum. Þolandinn sé flogaveikur og í aðstæðum sem þessum geti skapast hættuástand.

Þá framvísaði Solaris gögnum í málinu, m.a. myndböndum og myndum og óskað var eftir því að NEL og Umboðsmaður Alþingis hæfu rannsókn.