Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Skora á Bandaríkin að fella niður ákæru gegn Assange

09.07.2021 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Tíu þingmenn úr fimm flokkum hafa sent bandaríska sendiráðinu á Íslandi áskorun þar sem bandarísk stjórnvöld eru hvött til þess að láta niður falla ákærur á hendur Julian Assange, stofnanda Wikileaks.

Assange situr nú í öryggisfangelsi í Bretlandi þar til dómari úrskurðar hvort verða eigi við framsalskröfu bandarískra stjórnvalda.

Í Bandaríkjunum á Assange yfir höfði sér ákæru fyrir njósnir eftir að hafa komist yfir mikið magn leyniskjala bandarískra yfirvalda og hers og lekið á vef Wikileaks árið 2010. Í gögnunum er meðal annars að finna upplýsingar um stríðsglæpi Bandaríkjahers og pyntingar í Íraksstríðinu og víðfeðmar njósnir á almennum borgurum.

Í áskorun þingmannanna segir að „njósnaákærurnar“ séu tilraun til að gera rannsóknarblaðamennsku glæpsamlega og að hún setji slæmt fordæmi fyrir fjölmiðlafrelsi í heiminum.

epa07622697 (FILE) - Wikileaks founder Julian Assange speaks to reporters on the balcony of the Ecuadorian Embassy in London, Britain, 19 May 2017 (reissued 03 June 2019). Reports on 03 June 2019 state Uppsala District Court in Uppsala, Sweden, 03 June 2019 denied a request of  detention of Julian Assange in absentia on rape allegations. Assange was arrested at Ecuadorean embassy in March 2019.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
Julian Assange. Mynd: EPA-EFE - EPA
Assange dúsir nú í fangelsi í Bretlandi, en Bandaríkjastjórn hefur farið fram á að hann verði framseldur.

 

Vísað er í skýrslu erindreka Sameinuðu þjóðanna, Nils Melzer, sem segir meðferð Assange vera ómanneskjuvæna og hann hafi þurft að þola „einangrun og smánun“ auk þess að vera sviptur grundvallarmannréttindum.

Þingmennirnir vísa enn fremur í nýjar uppljóstranir, sem fram komu í umfjöllun Stundarinnar á dögunum, þess efnis að Sigurður Þórðarson, Siggi hakkari, hafi logið upp á Assange.

Uppljóstrun Stundarinnar hefur vakið athygli víða um heim enda þótti Sigurður lykilvitni í málarekstrinum.

Undir áskorunina skrifa Helga Vala Helgadóttir og Guðmundur Andri Thorsson, þingmenn Samfylkingarinnar, Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, Halldóra Mogensen, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson og Andrés Ingi Jónsson, þingmenn Pírata, Hanna Katrín Friðriksson og Jón Steindór Valdimarsson, þingmenn Viðreisnar, og Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins.

 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV