Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ný rannsókn á Estonia-slysinu hefst í dag

09.07.2021 - 06:30
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Ný rannsókn á flakinu af ferjunni Estoniu, sem liggur á botni Eystrasalts, hefst í dag. Rannsóknarteymi frá þremur löndum; Svíþjóð, Eistlandi og Finnlandi, hyggst rannsaka göt á skrokki ferjunnar sem greint var frá í nýlegri heimildarmynd og ekki höfðu sést áður.

Sænska ríkissjónvarpið hefur eftir Jonasi Bäckstrand hjá rannsóknarnefnd sjóslysa í Svíþjóð, að hafi götin komið á skipsskrokkinn á meðan ferjan var enn ofan sjávar geti þau hafa leitt til þess að hún sökk.

Ýmsar kenningar en engin vissa um orsök slyssins

Nokkrar kenningar eru uppi um orsakir slyssins en óyggjandi niðurstöður þar að lútandi hafa aldrei fengist. Grafarhelgi ríkir við flak Estoniu en eftir að götin voru sýnd í heimildarmyndinni var ákveðið að aflétta henni að hluta svo hægt væri að kafa niður að flakinu og rannsaka þau. „Við viljum fyrst og fremst komast að því, hvenær og hvernig götin urðu til," segir Bäckström.

Næstu tíu dagana verður sjávarbotninn umhverfis flakið rækilega kortlagður með bergmálsmælingum en síðar verður einnig kafað niður að flakinu til að ljósmynda það. Öll gögn sem aflað verður í rannsókninni verða birt með tíð og tíma, en það mun taka einhverja mánuði að vinna úr þeim, segir í tilkynningu sjóslysanefndar.

Efnt verður til minningarstundar yfir flakinu í dag, til að minnast þeirra 852 sem fórust þegar Estonia sökk hinn 28. september 1994. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV