
Sænska ríkissjónvarpið hefur eftir Jonasi Bäckstrand hjá rannsóknarnefnd sjóslysa í Svíþjóð, að hafi götin komið á skipsskrokkinn á meðan ferjan var enn ofan sjávar geti þau hafa leitt til þess að hún sökk.
Ýmsar kenningar en engin vissa um orsök slyssins
Nokkrar kenningar eru uppi um orsakir slyssins en óyggjandi niðurstöður þar að lútandi hafa aldrei fengist. Grafarhelgi ríkir við flak Estoniu en eftir að götin voru sýnd í heimildarmyndinni var ákveðið að aflétta henni að hluta svo hægt væri að kafa niður að flakinu og rannsaka þau. „Við viljum fyrst og fremst komast að því, hvenær og hvernig götin urðu til," segir Bäckström.
Næstu tíu dagana verður sjávarbotninn umhverfis flakið rækilega kortlagður með bergmálsmælingum en síðar verður einnig kafað niður að flakinu til að ljósmynda það. Öll gögn sem aflað verður í rannsókninni verða birt með tíð og tíma, en það mun taka einhverja mánuði að vinna úr þeim, segir í tilkynningu sjóslysanefndar.
Efnt verður til minningarstundar yfir flakinu í dag, til að minnast þeirra 852 sem fórust þegar Estonia sökk hinn 28. september 1994.