Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Læknar óskast til starfa um land allt en enginn kemur

09.07.2021 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Formaður Læknafélags Íslands segir vanta lækna um nær alla landsbyggðina. Hann vill gera læknastarfið úti á landi meira aðlaðandi með því að breyta vaktarfyrirkomulagi og minnka álag.

Enginn læknir í Borgarnesi í haust

Fram kom í fréttum RÚV á fimmtudag að líklega verði enginn læknir starfandi á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Borgarnesi frá og með haustinu. Framkvæmdastjóri hjá stofnuninni sagði álagið á landsbyggðinni fæla lækna frá því að taka störfin að sér og formaður Læknafélags Íslands tekur í sama streng. 

„Oft eru menn að koma þarna og einn læknir að sinna þriggja lækna héraði til dæmis. Og það getur ekki verið gott til lengri tíma. Og ég held líka að það sé miklu meira stabílitet fyrir íbúana að hafa lækna sem eru á staðnum. Og það sé til lengri tíma miklu betri fjárfesting,” segir Reynir Arngrímsson, formaður LÍ. 

Vill gera vinnuna meira aðlaðandi

Hann vill meðal annars láta endurskoða vaktafyrirkomulag lækna á landsbyggðinni til að gera vinnuna meira aðlaðandi. 

„Að breyta gæsluvöktum sem er í dag yfir í staðarvaktir, sambærilegar við það sem er á sjúkrahúsunum hér í Reykjavík. Þannig að það sé tryggt að fyrir vaktatímann sem er tekinn þá fái menn tiltekinn frítíma á móti.”

En læknaskortur á landsbyggðinni er ekki nýtt vandamál. Reynir segir heimilislækningar nú mjög eftirsótta sérgrein meðal læknanema, en það sé enn nokkuð í að þeir útskrifist. 

„En við sjáum það á næstu árum þurfum við að fjölga mjög mikið, um tugi heimilislækna, til að geta annað eftirspurninni.” 

Er skortur á heimilislæknum allsstaðar á landinu? 

„Ekki allsstaðar á landinu, það er orðið viðunandi hér á suðvesturhorninu. En það er sama hvert litið er úti á landi, þá vantar lækna.”