Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm á föstudegi fer á djúpið

Mynd með færslu
 Mynd: Big Red Machine - Renegade

Fimm á föstudegi fer á djúpið

09.07.2021 - 14:00

Höfundar

Hljómsveitin Big Red Machine fær Taylor Swift í heimsókn í laginu Renegade og síðan er lagt á djúpið með suðrænum kokteil hristum af Quantic og vinkonu hans Nidia Góngora, þá er það súr slagari frá Helvetia og að lokum tækni og dansvæn vísindi frá LoneLady og Overmono.

Big Red Machine ft Taylor Swift - Renegade 

Hljómsveitin Big Red Machine er hliðarverkefni félaganna Arons Dessner úr The National og Justins Vernon úr Bon Iver og nú er plata í smíðum hjá þeim félögum. Á henni verður tengslanetið á LinkedIn notað til hins ítrasta en How Long Do You Think It's Gonna Last? kemur út í lok ágúst. Fyrsti söngull er með samstarfskonu þeirra Taylor Swift og hefði auðveldlega getað verið að finna á plötum hennar Folklore eða Evermore, enda tríóið vant að vinna saman.


Quantic, Nidia Góngora - Balada Borracha

Will Holland er enskur tónlistarmaður og pródúser sem vinnur meðal annars undir nafninu Quantic og var hér í síðustu viku með endurhljóðblöndun af Khruangbin. Hann sérhæfir sig í graut af of cumbia, salsa, bossa nova, soul, funki, jazz og trip-hoppi en er á suðrænum nótum með Nidia Góngora í latin-neglunni Balada Borracha.


Helvetia - Rocks on the Ramp

Hljómsveitin Helvetia frá Seattle hefur verið að rembast í undirheimum nýbylgjurokksins í að verða tvo áratugi og gefið út þónokkrar plötur. Sú nýjasta heitir Essential Aliens og á líklega ekki eftir að skjóta þeim hátt á vinsældarlista frekar en hinar plöturnar þeirra en lagið Rocks on the Ramp er drullusvalt.


LoneLady - (There Is) No Logic

Manchester-post-punk-pían Julie Cambell var að senda frá sér sína þriðju plötu undir nafninu LoneLady og sú heitir Former Things. Á plötunni leggur hún gítarinn á hilluna og tekur upp svuntuþeysa og trommuheila enda var hugmyndin að gera teknóplötu eins og heyrist ágætlega í laginu (There Is) No Logic.


Overmono - So U Kno

Plötusnúðarnir og bræðurnir Tom og Ed Russell skipa teknósveitina Overmono, sem hefur starfað frá árinu 2016, og eru reglulegir verktakar á Berghain. Tónlist þeirra er sérhönnuð fyrir klúbba og áður en kóvid skall á voru þeir orðnir sjóðheitir - en eru að koma sér aftur í gang aftur með bangernum So U Kno.


Fimman á Spotify