Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Auka viðbúnað og búast við annasamri skemmtanahelgi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu verður með aukinn viðbúnað um helgina, en um síðustu helgi var mikil ölvun í miðbænum og met sett í sjúkraflutningum. Varðstjóri segir að sjúkraflutningamenn hafi verið að jafna sig fram eftir vikunni. Hann býst við svipuðu álagi nú.

„Við höfum bætt við mannskap, við gerðum það strax eftir fyrstu helgina þar sem COVID-höftum var aflétt,“ segir Sigurjón Hendriksson varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. „ Við erum búin að bæta við auka sjúkrabíl hérna í Skógarhlíðarstöðina þar sem mesta álagsaukningin er. Og þá er það aðallega út af skemmtanalífi borgarinnar. Við búumst alveg við því að það verði annasamt um helgina eins og síðustu helgi sem var alveg methelgi hjá okkur á laugardagskvöldinu.“

Um síðustu helgi var farið í 122 sjúkraflutninga sem er eins og að stórviðburður hefði verið í bænum. Af þessu voru 67 á laugardagskvöldinu, sem er um 25 fleiri en venjan er á þeim tíma. Sigurjón segir að erfitt sé að manna aukavaktir þessa dagana vegna sumarfría, en allt sé reynt til að vera viðbúin auknum verkefnum. Hann segir að sjúkraflutningamenn hafi verið lúnir eftir þessa annasömu helgi.

„Þeir voru hálflúnir fram á þriðjudag  það tók alveg tvo daga að jafna sig eftir svona törn fyrir þá sem voru mest í miðbænum.“

Þetta tekur á? „Já já, þetta tekur á og sígur í.“

Hann segir að eftir því sem veitingastaðirnir séu opnir lengur, þeim mun erfiðari verði verkefnin. „Þá er fólk orðið þreytt og kannski mikið drukkið og þá verður alltaf erfiðara að eiga við fólk þar sem það er búið að koma sér í vandræði.“