Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

28 manna hópur sagður hafa myrt forseta Haítí

epa09332192 Police patrol in a street as a mob tries to reach a station where two foreign men are under Police custody for allegedly participating in the assassination plot against Haitian President Jovenel Moise in Port-au-Prince, 08 July 2021. Moise was assassinated in his official residence on the morning of 07 July 2021. Four alleged assassins of Moise were killed by the police and two others were arrested on 08 July announced the Director General of the Police.  EPA-EFE/Jean Marc Herve Abelard
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Minnst 28 menn eru viðriðnir morðið á Jovenel Moise, forseta Haítí, að sögn lögreglu í Port-au-Prince. Tveir þeirra eru sagðir bandarískir ríkisborgarar fæddir á Haítí en hinir 26 kólumbískir. „Við höfum handtekið 15 af Kólumbíumönnunum og báða Bandaríkjamenninna sem eiga rætur sínar hér. Þrír Kólumbíumenn hafa verið felldir en átta ganga enn lausir," sagði Leon Charles, ríkislögreglustjóri, á fréttamannafundi í kvöld.

Áður hafði lögregla greint frá því að fjórir árásarmenn hefðu verið felldir, en lögreglustjórinn hafði engin orð um það misræmi. Hann greindi hins vegar frá því að „vopn og annar búnaður sem árásarmennirnir notuðu [hafi verið] gerð upptæk." Þá hét hann því að leitinni að Kólumbíumönnunum átta yrði ekki hætt fyrr en þeir væru annað hvort komnir í vörslu lögreglu eða fallnir.

Grunur beinist að öryggisvörðum og skipuleggjenda leitað

Forsetinn var myrtur á heimili sínu í Port-au-Prince aðfaranótt miðvikudags. Kona hans, Martine, særðist í árásinni og var flogið með hana á sjúkrahús í Miami í Flórída. Hermt er að líðan hennar sé stöðug og hún sé ekki í lífshættu. Augu lögreglu, saksóknara og annarra sem að rannsókn málsins koma beinast ekki einungis að meintri 28 manna aftökusveit heldur einnig að öryggisvörðum forsetans og mögulegri aðild þeirra að ódæðinu.

Hvar voru þeir, sem eiga að tryggja öryggi forsetans allan sólarhringinn, spyr saksóknari, og hvað gerðu þeir til að sinna þeirri skyldu sinni og hindra ódæðismennina í því að ráða forsetann af dögum?

Ríkislögreglustjórinn Leon Charles er líka á því að jafnvel þótt lögreglu takist að hafa hendur í hári kólumbísku málaliðanna átta, sem enn eru lausir, sé málinu ekki lokið. „Við erum með mennina sem frömdu sjálft illvirkið í haldi, en við leitum þeirra sem stóðu á bak við það.“

Pólitísk upplausn

Algjör pólitísk upplausn ríkir á Haítí og óljóst hver heldur þar um stjórnartaumana, ef nokkur Forsetinn er fallinn, þingið er óstarfhæft og umboð forsætisráðherrans og ríkisstjórnarinnar í besta falli vafasamt. Moise stjórnaði landinu með tilskipunum frá því að þingkosningum var frestað 2018 og hefur þingið varla verið starfhæft síðasta árið hið minnsta.

Claude Joseph, sem átti að láta af embætti forsætisráðherra í þessari viku, lýsti sjálfan sig æðsta handhafa framkvæmdavaldsins í landinu til bráðabirgða, eftir morðið á forsetanum. Ariel Henry, sem ætlað var að taka við af Joseph í vikunni véfengir umboð hans, telur sjálfan sig réttmætan forsætisráðherra og spyr, hvort hægt sé að hafa tvo forsætisráðherra í einu landi.