Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

230 milljónir í styrki til að efla hringrásarhagkerfið

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Guðmundir Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti í dag 31 verkefni sem fær úthlutun úr sjóði fyrir verkefni sem stuðla að eflingu hringrásarhagkerfis á Íslandi. Hæstu styrkir sem veittir eru til einstakra verkefna eru 20 milljónir króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins frá því fyrr í dag. Styrkveitingunum er ætlað að styðja við nauðsynlega uppbyggingu innviða hringrásarhagkerfisins á Íslandi og nýsköpun og þróun sem stuðlað getur að innleiðingu þess hérlendis.

Styrkirnir eru veittir hvort tveggja til nýsköpunar og þróunar á nýrri tækni og til innleiðingar á tækni sem þegar er þekkt. Þeir eru veittir á grundvelli stefnumótunar umhverfis- og auðlindaráðherra og aðgerðaáætlana sem varða úrgangsforvarnir og meðhöndlun úrgangs.

Styrkirnir voru auglýstir í mars 2021 og bárust ráðuneytinu alls 54 umsóknir og var heildarupphæð umsókna  917 milljónir króna.  Matshópur fór yfir allar umsóknir og gerði í kjölfarið tillögur til ráðherra um veitingu styrkja.

Verkefnin eru af margvíslegum toga, fjölbreytt og til marks um mikinn áhuga á hringrásarhagkerfinu um allt land. Heildarstyrkupphæð er 230 milljónir króna, þar af voru 30 milljónir króna sérmerktar nýsköpunarverkefnum.

Á síðu Stjórnarráðsins kemur fram að markmið með styrkveitingunum sé að:

a) Efla úrgangsforvarnir á Íslandi, s.s. til að draga úr myndun úrgangs.

b) Bæta flokkun úrgangs hér á landi.

c) Efla tækifæri til endurvinnslu úrgangs sem næst upprunastað.

d) Stuðla að aukinni endurvinnslu og annarri endurnýtingu úrgangs sem fellur til hér á landi.

e) Efla tækifæri til nýsköpunar og þróunar á búnaði sem dregur úr magni úrgangs eða auðveldar flokkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu úrgangs.

Hæstu styrkina, 20 milljónir króna, hlutu Loftkastalinn ehf. fyrir verkefnið „Rusl í gull - flokkun, endurnýting og vinnslutækni“ og VSÓ Ráðgjöf fyrir „Hringrásarhús“.