Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Minni uppskera vegna þurrka

08.07.2021 - 15:37
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Miklir þurrkar í kjölfar hlýinda á Norður- og Austurlandi hafa orðið til þess að tún eru farin að brenna hjá bændum. Staðan er misslæm en ljóst að uppskera verður víða minni en áður, segir bóndi í Skagafirði.

Umhleypingar í veðri

Bændur á Norður- og Austurlandi hafa þurft að takast á við óvenjumargar veðurtengdar áskoranir það sem af er ári. Vorið var óvenjukalt og tún tóku seint við sér. Síðustu vikur hafa verið mikil hlýindi og vindur með miklum vatnavöxtum og tilheyrandi flóðum inn á tún. Hlýindunum fylgir nú þurrkur en ekki hefur rignt að ráði í um mánuð og tún víða farin að brenna. Ekki er útlit fyrir úrkomu næstu daga. 

Steinn Rögnvaldsson er bóndi á Hrauni í Skagafirði. Hann segir að staðan á túnum sé ekki góð. „Hún er svo sem alls ekki góð en það rigndi núna í morgun og það er náttúralega algjör himnasending. Það eru farin að brenna hér tún og svo sem ekki neyðarástand en lítur ekki nógu vel út, við getum orðað það þannig,“ segir Steinn.

Staðan á heyjum ekki góð

Í fyrra var mikið kal á túnum, heybirgðir því ekki miklar og kláruðust þær í kuldanum í vor. Bændur þyrftu því að ná góðum heyjum í sumar, en óttast að svo verði ekki vegna þurrka. Sums staðar lítur jafnvel út fyrir að einungis náist einn sláttur í sumar. „Hann verður töluvert seinni en hann hefði verið og verður trúlega, eins og staðan er í dag, minni uppskera og já, minni hey í haust en reyndar er sumarið ekki búið og þetta getur allt breyst til hins betra, segir Steinn bjartsýnn.

Í Aðaldal fagna bændur hitanum

Sæþór Gunnsteinsson í Presthvammi í Aðaldal segir þurrka ekki enn farna að hafa slæm áhrif á sprettuna á túnum. „Það eru ekki farin að brenna tún svo sjáanlegt er en það er sama spá næstu daga þannig að það kannski fer að bera á því þegar líða tekur  á næstu viku, en ekki farið að gera það enn þá,“ segir Sæþór.

Í Aðaldal eru margir bændur nú að slá fyrsta slátt sumarsins og hafði hitinn góð áhrif á sprettuna sem tók við sér eftir að hafa verið lítil í kuldanum snemma í sumar. Sæþór segir bændurna því njóta heyskapar í veðurblíðunni. „Við erum ekki að kvarta þegar það er gott veður og nú er dásamlegt sumarveður. En auðvitað fylgir öllum veðrum einhver vandamál,“ segir Sæþór.