Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Íslenskir karlar vinna 12% lengri vinnuviku en konur

Mynd með færslu
 Mynd:
Munur á vinnutíma karla og kvenna í fullu starfi er mestur á Íslandi af öllum löndum OECD. Ein ástæða þess er að jaðarskattar eru meiri á konur í sambúð en karla. Bjarni Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra segir að ástæður þess þurfi að skoða nánar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD. Vinnuvika íslenskra karla er að jafnaði um 12% lengri en hjá konum. Í Svíþjóð og Noregi er þessi munur 3% og í Danmörku er hann um 4%. Meðaltalsmunur OECD-landanna er um 6%. Þarna er átt við launuð störf utan heimilis.

Í skýrslunni segir að ein skýring þessa sé að jaðarskattar, sem meðal annars felast í samnýtingu persónuafsláttar, leggist í meiri mæli á konur en karla. Sameiginlegur skattaafsláttur sé frekar nýttur af körlum en konum, þar sem þeir hafi oft hærri tekjur, og því sé lítill hvati fyrir konur til að vinna meira. Í skýrslunni segir að þær breytingar sem gerðar hafi verið á fæðingarorlofi hér á landi séu líklegar til að draga úr þessum mun.

Bjarni Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra segir að skoða þurfi ástæðurnar fyrir löngum vinnudegi íslenskra karla og þessum mun á vinnuframlagi karla og kvenna.  „Það sýnir sig að íslenskir karlmenn eru að vinna að jafnaði fleiri vinnustundir en gerist annars staðar og þetta er hlutur sem mig langar til að skoða nánar. Ég geri ráð fyrir því að þetta sé bundið við ákveðnar starfsgreinar og þetta gefur okkur tilefni til að skoða það nánar,“ segir Bjarni.