Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hafnarfjörður verður heimabær Tækniskólans

Mynd með færslu
 Mynd: Mennta-og menningarmálaráðune
Í gær undirrituðu fulltrúar stjórnvalda, Hafnarfjarðarbæjar og Tækniskólans viljayfirlýsingu um að reisa framtíðarhúsnæði skólans í Hafnarfirði. Skólinn hefur undanfarin ár starfað í nokkrum byggingum sem dreifast víða um höfuðborgarsvæðið en í nýrri skólabyggingu gæti öll starfsemi skólans verið undir sama þaki.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Áætlað er að ný skólabygging rísi við Suðurhöfnina í Hafnarfirði. 

„Bygging nýs Tækniskóla er löngu tímabær, enda er núverandi húsnæði óheppilegt og löngu sprungið,“ segir Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. „Aðsókn í skólann hefur aukist mikið, rétt eins og aðsókn í starfs- og tækninám hefur gert almennt.“ Í lok júní varð ljóst að um sjö hundruð nemendur myndu ekki fá skólavist á komandi skólaári en metaðsókn var í skólann nú á vordögum.  

Egill Jónsson, formaður stjórnar Tækniskólans, gleðst yfir undirrituninni. „Nú byggjum við til framtíðar og styðjumst við hugmyndafræði sem hefur reynst vel um allan heim. Við höfum undirbúið verkefnið vel og erum sannfærð um að ný skólabygging muni stórefla starfs- og tækninám í landinu,“ segir Egill.

Fram undan er mikil uppbygging á hafnarsvæðinu í Hafnarfirði og Tækniskólinn mun vera hluti af henni að sögn Rósu Guðbjartsdóttir, bæjarstjóra Hafnarfjarðar. „Það er trú okkar að bygging Tækniskólans við Suðurhöfnina verði mikið gæfuspor bæði fyrir skólann og Hafnarfjörð.“

Mynd með færslu
 Mynd: Mennta-og menningarmálaráðune
Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV