Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Framkvæmdi ónauðsynlega aðgerð á tveggja ára barni

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun landlæknis um að svipta háls-, nef- og eyrnalækni starfsleyfinu. Yfirgripsmikil rannsókn embættis landlæknis leiddi í ljós að maðurinn hafði framkvæmt ónauðsynlegar aðgerðir, bæði á börnum og fullorðnum.

Ábending um brot hans í starfi komu fram í desember 2019, en það voru samstarfsmenn hans sem létu Landlæknisembættið vita. Stöð 2 greindi fyrst frá því í gær að læknirinn hefði kært ákvörðun landlæknis um að svipta hann starfsleyfi til heilbrigðisráðuneytisins.  Ráðuneytið birti úrskurð sinn í dag þar sem úrskurður landlæknis er staðfestur.

Sérfræðingar embættisins rannsökuðu 53 aðgerðir mannsins á tímabilinu 1. september til 30. nóvember 2019. Komust þeir að þeirri niðurstöðu að ekki hafi fundist ábending fyrir aðgerð í tólf tilvikum og að „erfitt sé að sjá að einhver annar [læknir] hefði ákveðið að gera aðgerð undir þessum kringumstæðum“.

Sérlega ámælisverð er talin aðgerð sem framkvæmd var á tveggja ára barni, en í úrskurðinum, sem birtur er á heimasíðu ráðuneytisins, er búið að afmá hvers eðlis aðgerðin var.

Alls eru gerðar athugasemdir við 22 aðgerðir mannsins á tímabilinu. Jafnframt gerðu  skýrsluhöfundar athugasemdir við stuttan aðgerðatíma sem styðji ályktanir að um ranga, vafasama eða ófullnægjandi meðferð/aðgerð hafi verið að ræða.

Maðurinn var boðaður á fund hjá embætti landlæknis í desember 2019 þegar ábendingar höfðu borist og tilkynnt að rannsókn yrði hafin á starfsháttum hans. Kemur fram í úrskurðinum að þrýst hafi verið á hann að afsala sér lækningaleyfi meðan á rannsókn stóð, en þegar hann varð ekki við því var landlækni nauðugur kostur einn að svipta hann starfsleyfi til bráðabirgða.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV