Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Damon, Freyjólfur og Klara Elías fara heim

Mynd: Sony Denmark / Home

Damon, Freyjólfur og Klara Elías fara heim

08.07.2021 - 16:50

Höfundar

Það heyrast tilraunir af ýmsu tagi í Undiröldu kvöldsins, Klara Elías spreytir sig á þjóðhátíðarlagi og Damon sendir frá sér söngul af væntanlegri plötu. Önnur sem vilja upp á dekk eru Freyjólfur, Milkhouse, ferðalangurinn Ragnar Ólafsson, Íris Hólm og hestakonan Fríða Hansen.

Damon Albarn - Ocean

Eins og aðrir hefur Damon Albarn þurft að hanga heima síðasta árið og finna sér eitthvað að gera. Þetta eitthvað hefur verið að vinna við sína aðra sólóplötu sem heitir The Nearer The Fountain, The More Pure The Stream Flows og lagið Oceans er tekið af plötunni, sem kappinn ætlar að flytja í heild sinni í Hörpu á næsta ári.


Milkhouse - Dagdraumar Vol. 7

Flytjandi lagsins Dagdraumar Vol. 7 er stór-hljómsveitin Milkhouse en lagið er fyrsta útgáfa Milkhouse af væntanlegri plötu þeirra sem er væntanleg í lok sumars. Meðlimir Milkhouse hafa komið víða við í tónlistarsenu Íslands á undanförnum árum og spilað í hljómsveitum á borð við Skoffín, Óla Kram, We are not Romantic, K.óla og fleirum.


Freyjólfur - Minor Experiments

Tónlistarmaðurinn, Freyr Eyjólfsson hefur sent frá sér lagið Minor Experiments en hann starfar undir nafninu Freyjólfur og hefur sent frá sér tvær plötur undir því nafni, Brottfarir 2019 og Komur árið áður.


Ragnar Ólafsson - Mexico

Lagið Mexico samdi Ragnar á fimm vikna ferðalagi um Suður-Mexíko á síðasta ári, rétt áður en covid skall á. Lögin sem Ragnar sendir frá sér undir eigin nafni eiga það öll sameiginlegt að vera samin á heimsferðalögum, en síðasta plata Ragnars – platan m.i.s.s. - var einmitt samin á bát á siglingu niður Mississippi-fljótið.


Íris Hólm - Sumarið er tíminn

Tónlistarkonan Íris Hólm hefur sent frá sér ábreiðu af lagi Bubba Morthens Sumarið er tíminn sem kom út með GCD. Henni til aðstoðar við hljóðfæraslátt eru Helgi Reynir Jónsson, Davíð Atli Jones, Þórir Hólm Jónsson, Rósa Björg Ómarsdóttir og Erna Hrönn Ólafsdóttir.


Fríða Hansen - Höldum áfram

Fríða Hansen er tónlistarkona og lagahöfundur og var að senda frá sér lagið Höldum áfram. Lagið er sumarsmellur sem á að kveikja í fólki, að hafa gaman og njóta lífsins, segir í tilkynningu og er unnið með Vigni Snæ Vigfússyni.


Klara Elías - Heim

Tónlistarkonan Klara Elías, eða Klara í Nylon eins og sumir þekkja hana, sendi frá sér sitt eigið þjóðhátíðarlag í gær og nefnist það Heim. Þetta er hennar fyrsta lag á íslensku í meira en áratug og var samið ásamt Ölmu Guðmundsdóttur. Lagið segir hún í tilkynningu að hafi sérstöðu vegna þess að í 84 ára sögu Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum hefur hið opinbera þjóðhátíðarlag aðeins einu sinni verið samið og flutt af konu.