Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Af hverju er fólk að svitna yfir föstum vöxtum?

08.07.2021 - 13:55
Mynd: - / -
Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í maí en hækkunin var sú fyrsta frá árinu 2018. Í kjölfarið hækkuðu bankarnir vexti húsnæðislána og fólk sem hefur gengið um í draumalandi sílækkandi breytilegra vaxta byrjaði að velta fyrir sér hvort það væri loksins komið að því: Hvort fleygja þurfi út akkerinu og festa vextina.

Vextir voru örskýrðir í Hádeginu á Rás 1 í dag. Hlustaðu á örskýringuna í spilaranum hér fyrir ofan.

Er borðleggjandi að festa vextina núna eða er kannski sniðugt að bíða aðeins? Hversu lengi? Veit það einhver? Verum bara hreinskilin hérna: Við getum ekki svarað þessum spurningum með óyggjandi hætti í örskýringu vikunnar en við skulum nú samt skoða þetta mál sem heldur vöku fyrir húsnæðiseigendum á Íslandi. Og við byrjun að sjálfsögðu á byrjuninni.

Stýrivextir eru tól sem Seðlabankinn notar meðal annars til að hafa áhrif á verðbólgu. Undanfarna mánuði hefur verðbólgan skriðið upp á við og það útskýrir ákvörðun Seðlabankans í maí að hækka stýrivextina. Bankarnir fylgdu svo í kjölfarið og hækkuðu vextina sína — vexti sem höfðu lækkað í takt við lækkandi stýrivexti undanfarinna missera.

Stýrivextir Seðlabankans voru nefnilega í sögulegu lágmarki í fyrra, sem hafði keðjuverkandi áhrif og afborganir óverðtryggðra íbúðalána lækkuðu. Nú þegar verðbólgudraugurinn er vaknaður er þróunin byrjuð að snúast við, afborganir hækka og þess vegna er fólk að grípa til þess ráðs að endurfjármagna lánin sín og festa vextina, eins og umfjöllun Kjarnans í dag staðfestir.

En af hverju núna? Eru vextir ekki enn þá lágir?

Jú, vextir eru enn þá lægri en oft áður á Íslandi en þau sem eru þegar búin að festa vextina telja að vextir haldi áfram að hækka og afborganirnar af húsnæðisláninu með. Og þetta er ekki úr lausu lofti gripið. Í þjóðhags- og verðbólguspá Landsbankans fyrir árin 2021 til 2023 er því spáð að stýrivextir Seðlabankans haldi áfram að hækka næstu ár og Íslandsbanki spáir hóflegri hækkun vaxta næstu tvö ár.

Þá sagði Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri í hlaðvarpi Snorra Björns á dögunum að það kæmi sér á óvart að það séu ekki fleiri sem festa vexti. Hann sagði að ef hann ætti að gefa fólki ráð þá væri það að festa vexti. Hann bætti svo við þetta í viðtali við Vísi að fólk borgaði hærri vexti strax ef það festi vexti en að það veitti öryggi og fyrirsjáanleika. 

Er sem sagt ekki ókeypis að endurfjármagna til að festa vextina?

Nei, fyrir utan að þurfa að greiða ýmis gjöld þegar lánið er endurfjármagnað þá er Seðlabankinn bara búinn að hækka vextina einu sinni eftir að verðbólgan byrjaði að hækka. Breytilegir vextir eru enn frekar lágir og eins og Seðlabankastjóri segir, þá þarf maður að borga hærri vexti strax ef maður festir þá. 

En hvað gerist næst?

Það veit enginn en eitt er víst: Það skiptir minna máli hvað gerist næst ef vextirnir eru fastir í þrjú eða fimm ár en ef þeir eru breytilegir þá getur það sem gerist næst haft bein áhrif á afborganirnar af láninu þínu. 

Þitt er valið. Góða nótt!

Í lestrinum á örskýringunni í spilaranum hér fyrir ofan kemur fram að fólk þurfi að greiða stimpilgjöld þegar lán er endurfjármagnað. Það er rangt og hefur verið leiðrétt í textanum.